Innlent

„Þetta gætu verið nokkrir klukku­tímar eða nokkrir dagar“

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands við eftirlit þegar eldgos varð við Litla-Hrút. 
Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands við eftirlit þegar eldgos varð við Litla-Hrút.  vísir/vilhelm

Jarðeðlisfræðingur segir stöðuna benda til þess að kvika sé að troða sér upp í jarðskorpuna. Veðurstofan situr á fundi með almannavörnum í Öskju.

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands segir að í morgun hafi orðið breyting í skjálftavirkni sem jókst nokkuð seinni partinn. 

„Núna erum við að sjá mjög ákafa virkni og óróa sem bendir mjög sterkt til þess að kvika sé að troða sér upp í jarðskorpuna,“ sagði hann í kvöldfréttum.

Miðað við þessa atburðarás séu auknar líkur á eldgosi. 

„Hversu langan tíma það tekur ef svo fer er ómögulegt að segja. Þetta gætu verið nokkrir klukkutímar eða nokkrir dagar. Það verður bara að koma í ljós.“

Hann segir óvíst hvar það myndi gerast en líklega nálægt gossprungunni.

„Ef það yrði þar sem virknin hefur verið mest þá myndi hraun sem kemur þar upp ekki renna beint á Grindavík heldur til suðausturs í átt frá Grindavík og svo með tímanum niður í átt að Svartsengi. Þannig ef það kemur til goss er þetta ekki versti staðurinn, en við vitum ekkert hver þróunin verður.“

Gosið yrði þá í líkingu við þau sem urðu undanfari þrjú ár.

Erum við mögulega að fara að sjá gos í kvöld?

„Það er ekki hægt að útiloka það, það varð síðast gos á þessum hluta fyrir mörg hundrað árum og því höfum við ekki upplýsingar um það en ef þetta hegðar sér með svipuðum hætti og Fagradalseldarnir þá mun þetta taka sennilega töluverðan tíma en það er ómögulegt að segja.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×