Eitt orkuver HS Orku í Svartsengi sló út í dag, sem og ein túrbína fyrirtækisins á Reykjanesi. Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, segir mikið hafa gengið á í dag.
„Við vorum náttúrulega búin að gera ákveðnar ráðstafanir, við erum að fjarstýra virkjuninni í Svartsengi, þar sem jarðskjálftasvæðið hefur verið virkast, frá Reykjanesvirkjun. Okkar starfsfólk er að mestu leyti þar en auðvitað þurfum við að bregðast við og mæta á svæðið þegar svona hlutir koma upp á. Við reynum bara að tryggja öryggi starfsmanna okkar og öryggi afhendingar á heitu og köldu vatni innan svæðisins. Að öðru leyti getum við lítið gert annað en að láta þessa hrinu ganga yfir og vona það besta,“ segir Tómas.
Almannavarnir eru byrjaðar að flytja efni að svæði HS Orku við Svartsengi til þess að setja upp varnargarða. Tómas þakkar fyrir skjót viðbrögð þeirra.
„Við erum ekki byrjaðir á neinum framkvæmdum en það er verið að flytja efni úr námum á staði þar sem má leggja til að undirbúa ef það þarf að koma til þess að byggja varnargarða,“ segir Tómas.