Innlent

Þakk­lát fyrir að hræddir hundarnir fengu einnig húsa­skjól

Telma Tómasson skrifar
Auðbjörg María kveðst hafa blendnar tilfinningar til stöðunnar. Hún ræddi stöðuna sem upp er komin í fjöldahjálparstöð sem komið hefur verið á fót í Kórnum í Kópavogi.
Auðbjörg María kveðst hafa blendnar tilfinningar til stöðunnar. Hún ræddi stöðuna sem upp er komin í fjöldahjálparstöð sem komið hefur verið á fót í Kórnum í Kópavogi. Vísir

Auðbjörg María Ólafsdóttir er ein þeirra sem yfirgaf Grindavík í gærkvöldi, en fjórir hundar fylgdu henni og segist hún afar snortin og þakklát Rauða krossinum fyrir að skjóta yfir hópinn skjólshúsi.

Hún hafi jafnvel búist við að þurfa að sofa í bílnum sínum þar sem ekki er hlaupið að því að fá inni með fjóra ferfætlinga af stærri gerðinni. Auðbjörgu Maríu var því mjög létt þegar hún frétti af því að gæludýr væru velkomin í fjöldahjálparstöðina í Kórnum í Kópavogi og auk þess hafi verið til reiðu búr og teppi fyrir hundana hennar.

Auðbjörg María kveðst hafa blendnar tilfinningar til stöðunnar, hún hafi áhyggjur af því sem kann að gerast í Grindavík en er jafnframt þakklát fyrir að vera með þak yfir höfuðið fyrir sig og sína. Sjálf hafi hún haldið ró sinni meðan jarðhræringarnar voru sem mestar, það sama hafi ekki gilt um hundana hennar sem urðu mjög órólegir og hræddir. 

Hún segist hafa tekið hundana að sér á sínum tíma, bjargað þeim frá því að verða lógað og þeir fylgi henni öllum stundum. Það hafi því skipt hana miklu máli að komast í örugga höfn fyrir nóttina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×