„Þróunin hefur verið mjög athyglisverð og kannski ekki það sem við bjuggumst við. Við sáum í gærkvöldi að skjálftarnir færðu sig suðureftir og undir Grindavík og teygði sig meira að segja út á grunnsævi,“ segir Þorvaldur.
Eins og fram hefur komið var tekin ákvörðun um það að rýma Grindavík í gær eftir gríðarlega mikla skjálftavirkni síðdegis í gær. Sérfræðingar fylgjast með kvikugangi undir bænum.
Þorvaldur segir að það hafi verið eins og kvikan hafi hlaupið suður eftir. Þar myndist einskonar æðagangur undir Grindavík og undir sundhnjúkum. Það gæti endað með gosi en kvikan teygi sig inn undir Grindavík og út í sjó.
„Ef það verður gos í sjó þá gætum við fengið öskugos og töluvert gjóskufall myndi þá fylgja því sem þá dreifist bara eftir vindáttum. Líkurnar á gosi hafa aukist verulega eftir þessa atburði næturinnar. Þó svo að það sé ekki hægt að sjá beint út frá skjálftunum og því sem þau eru með í afmynduninni að kvika sé að vísa til yfirborðs þá held ég að það sé alveg rétt að gera ráð fyrir því að það sé mjög líkleg sviðsmynd.“