Innlent

Unnið að því að tryggja af­komu Grind­víkinga

Lovísa Arnardóttir og Bjarki Sigurðsson skrifa
Unnið er að því að tryggja Grindvíkingum húsnæði, aðgengi að skóla og afkomu þeirra að sögn forsætisráðherra.
Unnið er að því að tryggja Grindvíkingum húsnæði, aðgengi að skóla og afkomu þeirra að sögn forsætisráðherra. Vísir/Steingrímur Dúi

Unnið er að því að tryggja Grindvíkingum afkomu. Félagsmálaráðherra skoðar málið í samráði við aðra ráðherra. Ríkisstjórnin fundaði í hádeginu. Þar kynntu allir ráðherrar aðkomu sína að aðgerðum svo hægt væri að stilla strengi. Unnið er að því að koma upp samkomustað fyrir Grindvíkinga.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði ráðherra hafa farið yfir stöðuna á Reykjanesi og ólíkar sviðsmyndir. Það væri mikil óvissa með stöðuna en einnig um rýmingu. Það þurfi að huga að húsnæði, skólagöngu barna og stjórnkerfisins um framhaldið því enn sé alveg óvíst hversu lengi rýmingin varir.

„Ég held að við eigum ótrúlegan auð sem er að vinna innan þessa kerfis og stendur vaktina nánast allan sólarhringinn. En það er auðvitað erfitt mjög erfitt þegar óvissan er eins rík og hún er núna.“

Katrín sagði ljóst að það þyrfti að tryggja Grindvíkingum félagslegan stuðning. Það sé meiriháttar aðgerð að yfirgefa heimili sitt og nefndi að félagsmálaráðherra sé að skoða afkomu fólks og hvernig megi tryggja hana.

„Við erum í þannig ástandi að við þurfum að vinna málið öðruvísi en dags daglega,“ sagði Katrín um það hvernig þurfi til dæmis að leysa skólamálin með þá vitneskju samt að víða séu biðlistar í leikskóla og erfitt að komast að.

Katrín sagði þetta verkefni næstu daga og að stjórnkerfið væri að vinna saman að því.

Þórdís Kolbrún sagði ríkisstjórnarfundinn mikilvægan til að stilla saman strengi. Vísir/Steingrímur Dúi

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fjármálaráðherra sagði fundinn yfirgripsmikinn og að allir ráðherrar hafi farið yfir það hvernig málið snertir þeirra ráðuneyti.

„Þetta var mikilvægur fundur og gott að ná að stilla saman strengi og ná yfirsýn með það sem er að gerast. Óvissan er auðvitað enn gríðarleg og mest fyrir fólkið,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Hún sagði umfang verkefnis og viðbragða ekki liggja fyrir vegna óvissu jarðhræringanna.

Spurð um laun fólks sagði Þórdís Kolbrún að þetta hefði verið eitt af því sem hefði verið rætt á fundinum, það er staða fólks sem ekki getur mætt til vinnu vegna slíkrar óvissu og að þetta yrði skoðað áfram.

„Þetta er í skoðun og við erum meðvituð um þær spurningar sem þarf að svara og erum að yfirfara hvernig löggjöfin er núna,“ sagði Þórdís og átti þá við hvernig löggjöfin virkar og hvort það þurfi að breyta henni.

Húsnæðisvandi áskorun

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra sagði að loknum ríkisstjórnarfundi að farið hefði verið yfir einskonar samantekt vegna jarðhræringanna. Málið snerti mörg ráðuneyti og með ólíkum hætti.

Sigurður Ingi sagði mikilvægt að taka utan um Grindvíkinga. Vísir/Steingrímur Dúi

„Ég vil leggja áherslu á það sem við erum fyrst og fremst að gera núna er að taka utan um þetta fólk sem hefur yfirgefið heimili sín,“ sagði Sigurður Ingi að þau gerðu það með því að tryggja börnum skólagöngu og annað slíkt.

Hann sagði sveitarfélög landsins vinna að lausnum saman. Húsnæðisvandinn væru áskorun en að þau myndu ráða við vandann.

Spurður um kostnað sagði Sigurður Ingi að náttúruhamfaratryggingar myndu ná utan um kostnað. Það þyrfti að ná utan um stjórnkerfið en að það standi vel og skuldastaða ríkissjóðs væri ekki þannig að ekki væri hægt að takast við þær áskoranir sem eru framundan.

Guðrún Hafsteinsdóttir segir hug allra hjá Grindvíkingum. Vísir/Steingrímur Dúi

„Allir Íslendingar standa með Grindvíkingum. Ríkisstjórnin gerir það og stjórnkerfið allt. Við munum gera allt sem við getum til að takmarka það tjón sem náttúran ætlar að valda okkur.“

Guðrún Hafsteinsdóttir sagði ráðherra ríkisstjórnar hafa lagt fram minnisblöð um sín verkefni. Verkefnið sé stórt og snerti öll ráðuneyti stjórnarráðsins. Þetta hafi verið gert til að samhæfa aðgerðir þeirra.

„Við finnum öll óskaplega mikið til með Grindvíkingum. Í þessum sérstöku aðstæðum sem þeir eru í. Þeir eru í sömu aðstöðu og íbúar Vestmannaeyja voru í. Það er mikil samkennd þaðan og þeir finna þetta auðvitað í sínum reynslubrunni. Það er mikið áfall fyrir Grindvíkinga að yfirgefa heimili sitt seint um kvöld og vita ekki hvort þau geta snúið til baka. Þess vegna vil ég líka beina því til allrar íslensku þjóðarinnar að við tökum mjög þétt utan um Grindvíkinga. Þetta er áfall og við þurfum að tryggja að þau eigi öruggan stað til að vera á hér í landinu.“


Tengdar fréttir

Vaktin: Stór sprunga í Grindavík bein afleiðing kvikuinnskots

Sérfræðingar hjá almannavörnum, aðgerðastjórnum og Veðurstofunni hittust á fundi um stöðuna í Grindavík í morgun. Þeir telja tímabundið svigrúm fyrir aðgerðir almannavarna til að sækja nauðsynjar. Lögreglan á Suðurnesjum hefur veitt íbúum í einu hverfi heimild til þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×