Þetta sagði Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur, sem fór yfir stöðuna í Kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Hann sagði að umræddur sigdalur og dýpt hans sé í samræmi við GPS mælingar Veðurstofunnar. Þessi sigdalur væri vísbendinga um að kvikugangurinn undir Grindavík væri kominn nálægt yfirborðinu.
„Það bendir til þess að það styttist í gos og að því miður, bendir til þess að gosið komi innan bæjarmarka Grindavíkur.“
„Það er svartari sviðsmynd en ég hafði ímyndað mér,“ sagði Þorvaldur.
Jarðskjálftarnir síðustu daga virðast hafa farið eftir um tvö þúsund ára gamalli gígaröð og það bendir til þess að kvikan sé að nýta veikleika sem sé fyrir í skorpunni. Þorvaldur sagði hana enda um átta hundrað metrum norður af Grindavík og því hafi hann talið ólíklegt að gjósa myndi í bænum.
Síðan þá hafi skjálftarnir teygt sig undir bæinn og út á grynningarnar fyrir sunnan bæinn.
„Hann er búinn að lengjast sem því nemur. Eins og ég sagði áðan bendir allt til þess að Grindavík fái að sjá gos sem er helst til nálægt,“ sagði Þorvaldur.
Þorvaldur sagði að ef hraunið kæmi upp þar sem siggengið sé, muni það að öllum líkindum renna til vesturs að mestu og þá frá bænum. Eitthvað muni fara til austurs en líklega ekki mikið, miðað við greiningar.
„Svo er bara spurningin um hvers miklar skemmdir verða á bænum og hve stór hluti hans fer undir hraun, ef þetta allt saman raungerist,“ sagði Þorvaldur.