Tedros Ghebreyesus, framkvæmdastjóri WHO, segir fjölda látinna meðal sjúklinga hafa aukist og sjúkrahúsið sé í raun ekki lengur sjúkrahús.
„Heimsbyggðin getur ekki setið þögul hjá á meðan sjúkrahúsum, sem eiga að vera öruggt skjól, er breytt í vettvang dauða, eyðileggingar og örvæntingar,“ sagði Ghebreyesus í yfirlýsingu í dag.
WHO og samtökin Læknar án landamæra eru meðal þeirra sem hafa kallað eftir tafarlausu vopnahléi og að sjúkrahús og aðrar heilbrigðisstofnanir verði látnar í friði.
Guardian hefur fjallað nokkuð ítarlega um átökin umhverfis al Shifa í dag og segir yfirráð yfir sjúkrahúsinu meðal helstu markmiða Ísraelshers. Sjúkrahússvæðið, þar sem um 15.000 manns eru taldir hafast við um þessar mundir, sé bæði miðpunktur stjórnskipulegra innviða Hamas-samtakanna og nálægt aðalveginum meðfram ströndinni, sem tengir norður- og suðurhluta Gasa.
Eitt af yfirlýstum markmiðum Ísraelsstjórnar er að tryggja að Hamas taki ekki aftur við völdum á Gasa. Liður í því er að gjöreyðileggja alla innviði samtakanna og getu þeirra til að samhæfa aðgerðir.
Hversu langt Ísraelsmenn munu geta gengið á hins vegar eftir að koma í ljós en þeir hafa þegar kallað yfir sig fordæmingu Arabaríkjanna og fjölda alþjóðlegra stofnana, auk þess sem traustir bandamenn á borð við Bandaríkjamenn hafa ítrekað um helgina að mannfall meðal saklausra borgara sé ekki ásættanlegt.
Ísraelar hafa áður þurft að láta af hernaðarðagerðum undir alþjóðlegum þrýstingi en það er fátt sem bendir til þess að ríkisstjórn Benjamin Netanyahu sé við það að gefa undan. Forsætisráðherrann sagði í dag að herinn hefði boðist til þess að sjá al Shifa fyrir eldsneyti en forsvarsmenn Hamas hefðu neitað.
Fregnir hafa borist af því að Ísraelsher hafi greint frá öruggum leiðum frá sjúkrahússvæðinu en fólk sé of hrætt til að fara út. Fjöldi er enda sagður hafa látist í árásum á svæðinu, þar á meðal nokkrir heilbrigðisstarfsmenn.