Líkt og sjá má á vef Veðurstofunnar er skjálftavirknin stöðug við gossprunguna við Grindavík en allir skjálftar undir 3,0 að stærð.
Nú er ekkert annað að gera en bíða og sjá hvað gerist en líkt og fram hefur komið er alls ekkert víst að gos myndi gera boð á undan sér.
„[Kvikan] gæti laumast út án þess að við sjáum mikla skjálftavirkni eða óróa eða færslur; hún gæti laumað sér upp,“ segir Elísabet. Hún segir að á hinn bóginn gæti kvikann gert vart við sig með nokkrum kröftugum skjálftum.
„Við fylgjumst með öllum merkjum. Auðvitað vonumst við til að fá einhvern fyrirvara,“ segir Elísabet.
Spurð að því hvaða þróun gæfi til kynna að það myndi mögulega ekki gjósa segir Elísabet að það væri í raun óbreytt staða í langan tíma eða ný gögn sem bentu í þá átt.
Von er á nýjum gögnum í fyrramálið, sem ættu að gefa til kynna hversu grunnt er á kvikunni en síðustu mælingar sýndu að hún væri í um 800 metra fjarlægð frá yfirborðinu.