Körfubolti

Móta­hald körfu­boltans mun raskast vegna um­brotanna í Grinda­vík

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Grindvíkingar eru vanir að styðja vel á bak við körfuboltaliðin sín en nú er ástandið þannig að körfuboltinn þarf að vera settur til hliðar.
Grindvíkingar eru vanir að styðja vel á bak við körfuboltaliðin sín en nú er ástandið þannig að körfuboltinn þarf að vera settur til hliðar. Vísir/Hulda Margrét

Hannes Jónsson, framkvæmdastjóri KKÍ sendi frá sér tilkynningu fyrir hönd KKÍ og körfuknattleikshreyfingarinnar vegna ástandsins í Grindavík en það er nokkuð ljóst að Grindvíkingar eru ekki að fara að spila leiki í Subway deildunum á meðan staðan er svona.

Hannes segir að núna sé númer eitt núna að allir Grindvíkingar reyni að átta sig á aðstæðum og finna út úr sínum nauðsynlegustu málum.

„Grindvíkingar og við hjá KKÍ þurfum að fá tíma til að sjá hvernig hlutirnir þróast allra næstu daga en öllum má vera ljóst að ekki verður spilað í Grindavík á næstu dögum og hugsanlega mun mótahald okkar raskast eitthvað vegna þessa,“ skrifar Hannes.

Næstu leikir Grindvíkinga í Subway deildunum er í á föstudag og laugardag. Karlaliðið á útivelli á móti Hamri í Hveragerði á föstudaginn og daginn eftir er heimarleikur hjá kvennaliðinu á móti Þór Akureyri. Næsti heimaleikur karlaliðsins er síðan föstudaginn 24. nóvember á móti nágrönnum sínum í Keflavík.

Í viðbót við þetta bætast síðan allir leikir yngri liða Grindvíkinga sem eru með fjölmennt unglingastarf hjá báðum kynjum.

Körfuknattleikssambandið ætlar að leysa öll mál í samráði við körfuknattleiksdeild Grindavíkur og yfirvöld.

Hannes fagnar þeim fréttum og þakkar þeim aðildarfélögum okkar sem nú þegar hafa haft samband við Grindvíkinga og boðið fram aðstoð sína þannig að ungir iðkendur Grindavíkur geti mætt á æfingar hvar sem þau eru stödd á landinu.

„Við vitum að öll okkar aðildarfélög munu bjóða Grindvíkinga velkomna til sín enda er mikilvægt ungir iðkendur nái halda í sína rútínu eins og hægt er við aðstæður sem þessar,“ skrifar Hannes og sendir hlýjar kveðjur frá KKÍ og körfuknattleikshreyfingunni til allra Grindvíkinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×