Enski boltinn

Pochettino bað Pep af­sökunar á hegðun sinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mauricio Pochettino var mjög reiður í leikslok eftir 4-4 jafntefli í leik Chelsea og Manchester City í gær.
Mauricio Pochettino var mjög reiður í leikslok eftir 4-4 jafntefli í leik Chelsea og Manchester City í gær. Getty/Robin Jones

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Chelsea, missti stjórn á sér eftir dramatískt 4-4 jafntefli Chelsea og Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Pochettino sá eftir öllu saman þegar hann var búinn að ná sér niður eftir leikinn. Á blaðamannafundi bað hann dómaratríóið og knattspyrnustjóra City afsökunar.

Pochettino rauk út á völlinn í leikslok til að rífast við Anthony Taylor dómara en ástæðan var að leikurinn var flautaður af þegar Chelsea var í lofandi sókn.

Pochettino tók ekki í höndina á Pep Guardiola, knattspyrnustjóra Manchester City, og fékk síðan gult spjald fyrir mótmælin við dómarann áður en starfsmenn hans drógu hann í burtu.

„Ég þarf að biðja Anthony [Taylor] og dómarana afsökunar. Á þessari stundu þá fannst mér að Raheem [Sterling] væri að sleppa í gegn til að skora fimmta markið. Þá var leikurinn flautaður af. Ég fer til Anthony: Hvað í and... er í gangi. Af hverju stoppar þú leikinn,“ sagði Mauricio Pochettino. ESPN segir frá.

„Ég snéri síðan við og sagði að ég ætti skilið að fá gult spjald. Ég fór yfir línuna. Ég vil biðjast afsökunar af því að svona hegðun leit ekki vel út fyrir mig né fyrir fótboltann,“ sagði Pochettino en blaðamenn spurðu hann líka út í það að hafa ekki tekið í höndina á Guardiola eftir leikinn.

„Ég vil líka biðja hann afsökunar. Ég bara sá hann ekki. Ég var svo einbeittur á það sem hafði gerst í lokin. Ég vil einnig biðja Pep afsökunar,“ sagði Pochettino.

Guardiola sjálfur gerði lítið úr atvikinu og sagði að þetta væri ekkert vandamál og hann hefði engan áhuga á að ræða það frekar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×