Innlent

Ölvaður öku­maður ók á ljósa­staur

Atli Ísleifsson skrifar
Í Garðabæ var tilkynnt um „grunsamlegan mann með kúbein“ í íbúðahverfi.
Í Garðabæ var tilkynnt um „grunsamlegan mann með kúbein“ í íbúðahverfi. Vísir/Vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út eftir að tilkynnt var um að bíl hafði verið ekið á ljósastaur í hverfi 103 í Reykjavík. Þegar að var komið var bíllinn var ofan á ljósastaurnum og ökumaðurinn enn í ökumannssætinu.

Í tilkynningu frá lögreglu, þar sem segir frá verkefnum gærkvöldsins og næturinnar, kemur fram að þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi ökumaðurinn greinilega verið ölvaður. Borið hafi á áfengislykt, maðurinn þvoglumæltur og votur í augum. Þá segir að maðurinn hafi verið handtekinn, blóðsýni tekið og hann vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.

Í tilkynningu lögreglu segir einnig að tilkynnt hafi verið um þjófnað í matvöruverslun þar sem þjófurinn hafi farið af vettvangi áður en lögregla bar að garði og fannst hann ekki þrátt fyrir leit.

Í miðborg Reykjavíkur var tilkynnt um mann sem hafði ráðist á starfsmann á hóteli. Starfsmaðurinn hafði engar kröfur á hendur manninum sem var flúinn áður en lögregla kom. Maðurinn fannst ekki þrátt fyrir leit.

Í Garðabæ segir að tilkynnt hafi verið um „grunsamlegan mann með kúbein“ í íbúðahverfi. Hann fannst ekki þrátt fyrir leit, segir í tilkynningu lögreglu.

Í Kópavogi var tilkynnt um ökumann sem hafi ekið á kyrrstæða bíla en hann var greinilega undir áhrifum ávana- og fíkniefna; mjög sljór í tali og fasi og átti erfitt með að halda sér vakandi. Hann var handtekinn, blóðsýni dregið og hann vistaður í klefa í þágu rannsóknar málsins.

Í Kópavogi var einnig tilkynnt um æstan mann í fjölbýli en hann hafði valdið skemmdum á sameign hússins og ekki verið húsum hæfur. „Maðurinn verulega ölvaður; áfengislykt, drafandi í tali. Handtekinn og vistaður í klefa í þágu rannsóknar málsins.“

Þá voru skráningarmerki fjarlægð af nokkrum ökutækjum í hverfi 104 í Reykjavík þar sem ekki hafði verið staðið að skilum á vátryggingu ökutækjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×