Tveir af færustu jarðvísindamönnum þjóðarinnar ræða um atburðina á Reykjanesskaga, þau Freysteinn Sigmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, og Kristín Jónsdóttir, eldfjalla- og jarðskjálftafræðingur, og yfirmaður náttúruvár á Veðurstofunni.
Bæði fylgjast þau núna grannt með því sem er að gerast í jarðskorpunni undir Reykjanesskaga og hafa nýjasta stöðumat á kvikuganginum sem fylgir Sundhnúkasprungunni. Það var einmitt vegna hans sem Grindavík var rýmd á föstudagskvöld þegar kvikugangurinn færðist undir bæinn. Jarðskjálftahrinan sem fylgdi var fordæmalaus og kvikuinnstreymið ógnvænlegt en síðan hefur dregið úr skjálftunum og einnig kvikuinnstreyminu.
En hvað þýða þessar nýjustu breytingar varðandi hættuna á eldgosi? Hvar þau telja líklegast núna að gjósi, ef það verður gos á annað borð? Hvað gæti eldgos orðið stórt? Til hvaða varna getum við gripið?
Hvað þýða þessar jarðhræringar á Reykjanesskaga í stærra samhengi? Þarf samfélagið að gera ráð fyrir að svona atburðir endurtaki sig næstu áratugi, jafnvel næstu aldir?