Innlent

Sigdalurinn seig í nótt og strangara eftir­lit

Oddur Ævar Gunnarsson og Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifa
Logi Sigurjónsson, gæslustjóri á svæðinu og lögreglumaður.
Logi Sigurjónsson, gæslustjóri á svæðinu og lögreglumaður. Vísir/Arnar

Sigdalur undir Grindavík seig í nótt og verða viðbragðsaðilar með strangara eftirlit við aðgerðir vegna björgun nauðsynja í bænum í dag. Gæslustjóri segir vel hafa gengið það sem af er degi.

Eins og Vísir hefur greint frá hefur starfsfólki fyrirtækja í Grindavík verið hleypt inn í bæinn frá klukkan 10:00 í morgun. Klukkan 12:00 verður íbúum hleypt inn. Logi Sigurjónsson, gæslustjóri á svæðinu og lögreglumaður, segir aðgerðir í dag hafa gengið vel.

Verður þetta eitthvað öðruvísi en í gær?

„Þetta mun væntanlega ganga aðeins hægar fyrir sig í ljósi breyttra aðstæðna í Grindavík. Sigdalurinn hefur sigið í nótt og er enn á hreyfingu, þannig að við erum að fara að öllu með gát.“

Hvernig öðruvísi verður þetta?

„Það verður bara stífari fylgd og aðeins strangara hvað það varðar.“

Logi segir að líkt og í gær fái íbúar fimm mínútur til að ná í nauðsynjar á heimili sitt. Íbúar verði í fylgd með björgunarsveitum líkt og í gær. Hann segir stöðugan straum hafa mætt í bæinn í morgun.

Hvernig leggst dagurinn í ykkur?

„Bara vel. Þetta gekk vel í gær og við vonum að þetta gangi vel í dag líka.“

Logi segir að aðgerðum muni ljúka klukkan 16:00. Þá verður dagsbirta af skornum skammti. Hann segir að viðbragðsaðilum líði vel á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×