Þetta staðfestir Þórarinn Guðjónsson, forseti læknadeildar HÍ, í samtali við Vísi.
Þá hafa allir læknanemar deildarinnar, sem telja í hundruðum, fengið póst vegna málsins.
„Þetta er bara alls ekki í lagi,“ segir Þórarinn, sem tekur fram að málið sé litið alvarlegum augum. „Læknanemar skrifa undir þagnareið á fyrsta ári og svo er þetta ítrekað oft við þá. Þannig að við tökum þessu alvarlega.“
Mannlíf greindi frá umræddu atviki í gær en samkvæmt lýsingu miðilsins ræddu þrír læknanemar um sjúkrasögu einstaklinga og nafngreindu einhverja þeirra. Sumar lýsingar þeirra eiga að hafa verið niðrandi. Atvikið er sagt hafa átt sér stað í heitum potti í sundlaug í Reykjavík og að á annan tug sundlaugargesta hafi verið viðstaddir samræðurnar.
Þórarinn tekur fram að ekki sé vitað hvaða læknanemar hafi átt í hlut. Í raun hefur Þórarinn það bara eftir blaðamanni Mannlífs hvað hafi átt sér stað en sá virðist hafa verið sjálfur í heita pottinum.
Þá segir Þórarinn að það sé erfitt að reyna að komast að því hvaða læknanema um ræðir. Ólíklegt sé að einhver stígi fram. Hann geti í raun ekki einu sinni verið viss um að þeir stundi námið við Háskóla Íslands.
„Við gerum okkar besta í að fyrirbyggja að svona gerist,“ segir Þórarinn sem bætir við að ef það kemur í ljós hverjir umræddir einstaklingar séu þá verði þeir teknir tali og frekari aðgerðir teknar til skoðunar.