Hér má sjá viðtalið í heild sinni:
„Þegar ég sýndi í Norræna húsinu þá héngu þessar myndir í röð og Lýðforingjarnir við hliðina á,“ segir Ragnheiður, en verk hennar Lýðforingjar er einnig ádeiluverk.
„Fullorðin kona kom til mín og sagði veistu það bara hríslaðist kalt vatn eftir bakinu á mér við að horfa á þessar myndir, mér líður bara illa.“
Sjálfsblekkingarsería
Ragnheiður stendur fyrir sýningunni Kosmos/Kaos á Listasafni Árnesinga. Á sýningunni má meðal annars finna fjögur verk saman á vegg sem öll búa yfir svipuðu andrúmslofti og má sjá glugga og rúllugardínu.
„Á fyrstu mynd líturðu út um gluggann og þér veitir ekkert af að fara að taka til í eigin ranni en þú bara dregur rúllugardínuna niður. Á henni er gervisól og þú bara þykist ekki sjá þetta.
Á næstu mynd er búið að brjóta gluggann og henda einhverri drullu inn í hann en þú skiptir þér ekki af því. Á þriðju þá treðurðu tusku í brotið og þykist enn ekki sjá þetta.
Svo þegar við komum að fjórðu myndinni þá neyðistu til að opna augun því þá er óhugnaðurinn kominn inn um gluggann til þín og gervisólin er orðin heldur betur myrk.“
Furðuleg tilviljun
Ragnheiður er óhrædd við að segja sínar skoðanir og vera gagnrýnin í listsköpun sinni. Aðspurð hvort hún hafi upplifað mikla græðgi í samfélaginu á sínum tíma svarar hún:
„Ekki laust við það. Og þannig er það nú enn.“
Hún segir ansi merkilegt að hugsa til þess hvað hún ákvað að skíra rúllugardínuseríuna.
„Á fyrstu sýningunni minni 1976 þá skíri ég þessar rúllugardínumyndir 2008 - 2010, fyrir tæpum fimmtíu árum. Myndirnar eru dökkar, sjálfsblekkingin er mikil og þær heita nákvæmlega eftir árinu sem hrunið er. Þetta er alveg furðulegt.“