„Hvar er löggæslan á næturnar?“ spyr Rakel Lilja í færslu á Facebook. Á myndbandi úr eftirlitskerfi við hús hennar á Austurvegi í Grindavík í nótt sjást tveir einstaklingar, líklega karlmenn á þrítugsaldri að sögn Rakelar Lilju, taka tvö reiðhjól, hjóla í burtu og svo skila þeim tuttugu mínútum síðar.
Atvikið kemur í kjölfar atviks í gær þar sem ljósmyndari RÚV gerði tilraun til að komast inn í mannlaust hús að mynda. RÚV og ljósmyndarinn hafa beðist afsökunar á hegðun sinni.
„Maður hélt að heimili manns og það sem væri fyrir utan það væri öruggt,“ segir Rakel Lilja. Hún minnist þess þegar þau yfirgáfu heimili sín að hafa litið á reiðhjólin.
„Ég hugsaði það verður engin hérna. Þau eru þarna allan daginn alla daga ársins og aldrei neitt vesen. Af hverju ætti þetta að gerast þegar bærinn er mannlaus?“
Myndbandið var tekið klukkan 04:47 í nótt og svo aftur tuttugu mínútum síðar þegar hjólunum var skilað. Rakel Lilja er meðal áhyggjufullra Grindvíkinga vegna heimila sinna. Aðallega vegna skjálftanna en nú líka vegna mögulegs innbrots og þjófnaðar.
„Ég hef verið að kíkja og fara í gegnum myndefnið. Skoða hvað hefur verið í gangi,“ segir Rakel Lilja. Hún var stödd í Skopp með fleiri Grindvíkingum eftir hádegið þegar hún sá myndefnið.

„Fólki blöskraði þegar ég opnaði þetta,“ segir Rakel Lilja. Aðrir Grindvíkingar hafi verið jafnhissa og hún.
„Ég tilkynnti þetta til lögreglu,“ segir Rakel Lilja. Málið sé sérstakt enda hafi hjólunum verið skilað. Því er kannski ekki um þjófnað að ræða þó hjólunum hafi samt verið stolið. Myndskeiðið er á borði lögreglu.
Rakel Lilja segist í myndskeiðinu heyra íslenskar raddir sem virðast hlæja að miða sem skilinn var eftir í glugga, til marks um að húsið væri yfirgefið. Atvikið sé mjög óþægilegt. Fjölmargir Grindvíkingar taka undir með Rakel Lilju við færslu hennar á Facebook

Rakel Lilja og fjölskylda fékk inni hjá góðu fólki í Garðabæ.
„Við fengum íbúð strax í Garðabænum hjá yndislegu fólki sem vildi leyfa okkur að vera hjá sér. Við verðum þar til áramóta,“ segir Rakel Lilja. Svo taki við óvissa.