Enski boltinn

Man. Utd mun ekki selja Sancho á út­sölu­verði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jadon Sancho á ferðinni í leik með Manchester United liðinu. Liðið þarf á biti í sóknin að halda en hann er samt út í kuldanum.
Jadon Sancho á ferðinni í leik með Manchester United liðinu. Liðið þarf á biti í sóknin að halda en hann er samt út í kuldanum. Getty/Stu Forster

Framtíð Jadon Sancho hjá Manchester United virðist svo gott sem ráðin en hann gæti verið fastur hjá félaginu komi ekki ásættanlegt tilboð í janúar.

Það er almennt búist við því að Sancho verði seldur í janúarglugganum en samkvæmt heimildum ESPN úr herbúðum United þá verður hann ekki seldur á neinu útsöluverði.

United mun hlusta á tilboð í leikmanninn en Sancho hefur verið út í kuldanum síðan opinbert rifrildi hans við knattspyrnustjórann Erik ten Hag.

Ten Hag heimtaði að Sancho bæði hann afsökunar á því að hafa sagt frá því á samfélagsmiðlum af hverju leikmaðurinn var ekki valinn í hópinn fyrir 3-1 tapleik á móti Arsenal. Sancho hefur hingað til neita að verða við því.

Sancho hefur ekki spilað með Manchester United síðan í ágúst.

Það er vitað af áhuga liða eins og Juventus og Borussia Dortmund en vandamálið er að United vill fá til baka eins mikið og mögulegt er. Það gæti reynst báðum félögum erfitt að safna saman stórri upphæð fyrir Sancho.

United keypti Sancho á 73 milljónir punda sem er stingandi upphæð í dag miðað við það litla sem hann hefur skilað félaginu á þessum rúmu tveimur árum. Sancho hefur spilað 88 leiki með United í öllum keppnum frá 2021 og skoraði í þeim tólf mörk.

United hefur hins vegar ekki útilokað það að Sancho fari á láni en þá þarf liðið sem tekur hann einnig að greiða stóran hlut launa hans. Það er kannski líklegri niðurstaða en að eitthvað félag sé tilbúið að borga stóra upphæð fyrir þennan 23 ára leikmann.

Sancho er með samning til 2026 með möguleikanum á einu ári í viðbót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×