Innlent

Kvikugas mælist í Svarts­engi

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Orkuver HS Orku er í Svartsengi.
Orkuver HS Orku er í Svartsengi. Vísir/Vilhelm

Í dag mældist kvikugas upp úr borholu í Svartsengi sem staðsett er rétt norðan Þorbjarnar. Frekari mælinar verði gerðar á morgun en það að kvikugas mælist úr borholunni er staðfesting á að kvika sé til staðar norðan Hagafells, líkt og talið hafði verið.

Þetta kemur fram í tilkynningu á síðu Veðurstofu rétt í þessu.

Tilvist kviku staðfest

„Í dag mældist kvikugas, brennisteinsdíoxíð (SO2), upp úr borholu í Svartsengi sem staðsett er rétt norðan Þorbjarnar,“ stendur í tilkynningunni. Þar segir einnig að borholan sé skáboruð í austur undir Grindavíkurveg og nái inn í jarðskorpuna í átt að Sundhnúksgígum.

Veðurstofa segir að nákvæmari mælingar verði gerðar á morgun en að mæling kvikugass staðfesti að kvika sé til staðar norðan Hagafells.

Líkur á gosi enn taldar miklar

Þar kemur einnig fram að aflögun tengd kvikuganginum mælist áfram þó hún hafi hægt örlítið á sér frá í gær.

Líkur á eldgosi eru ennþá taldar miklar. Fylgst er með merkjum grynnkandi smáskjálftavirkni og skyndilega gliðnun sem geta verið fyrirboðar þess að kvika sé að brjóta sér leið til yfirborðs en engin merki eru um slíkt.

Það kemur einnig fram í tilkynningunni að frá myndun kvikugangsins föstudaginn tíunda nóvember hafi land sigið um allt að 25 sentímetra innan sigdalsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×