Enski boltinn

Arteta kærður fyrir skammarræðuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikel Arteta fór mikinn á umræddum blaðamannafundi og fær ekki að komast upp með það.
Mikel Arteta fór mikinn á umræddum blaðamannafundi og fær ekki að komast upp með það. Getty/Nigel French

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, hefur verið kærður af enska knattspyrnusambandinu fyrir ummæli sín eftir 1-0 tap Arsenal á móti Newcastle í ensku úrvalsdeildinni á dögunum.

Arteta var mjög ósáttur með það að sigurmark Newcastle hafi fengið að standa eftir að myndbandsdómararnir skoðuðu þrjár mismunandi ástæður fyrir því að dæma markið af.

Anthony Gordon skoraði markið en þetta er eitt umdeildasta mark sem hefur verið skorað í langan tíma. Það stóð samt eftir langa og ítarlega skoðun.

Arteta kallaði niðurstöðu VAR vandræðalega og hreina skömm en dómararnir í VAR-herberginu fundu ekki óyggjandi sannanir fyrir því að dæma markið af þrátt fyrir að boltinn virtist fara út af vellinum í aðdragandanum, markaskorarinn gat mögulega verið rangstæður og ýtt var á bak varnarmanns Arsenal í markteignum.

Arteta fær tíma þar til á þriðjudaginn til að svara ákærunni.

Hann stóð fast á sínu í framhaldinu og Arsenal kom síðan með tilkynningu þar sem félagið stóð að baki knattspyrnustjóra sínum og lýsti því einnig yfir að dómgæslan hafi verið óásættanleg og að leikmenn, þjálfarar og stuðningsmenn ættu betra skilið.

Howard Webb, yfirmaður dómaramála, hefur komið fram og lýst því yfir að myndbandsdómararnir hafi komist að réttri niðurstöðu í öllum þessum þremur umdeildu atriðum.

Tapið á móti Newcastle var það fyrsta á tímabilinu hjá Arsenal liðinu. Liðið er nú í þriðja sæti í ensku úrvalsdeildinni en þó bara einu stigi á eftir toppliði Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×