Erlent

Þver­tekur fyrir að samningur um vopna­hlé sé í höfn

Árni Sæberg skrifar
Benjamín Netanjahú er forsætisráðherra Ísraels.
Benjamín Netanjahú er forsætisráðherra Ísraels. Kena Betancur/Getty

Forsætisráðherra Ísraels segir engan samning um tímabundið vopnahlé í átökum Ísraels og Hamas og sleppingu gísla í höfn. 

The Washington Post hafði í gær eftir heimildarmönnum sínum að búið væri að semja um fimm daga vopnahlé í átökunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Þá væri slepping ríflega fimmtíu gísla Hamas-samtakanna hluti af samningnum, sem og aukinn aðgangur að Gasa fyrir mannúðarsamtök.

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels sagði þó á blaðamannafundi í gærkvöldi að sem stendur sé ekkert samkomulag í höfn um sleppingu hluta eða allra þeirra ríflega 200 gísla sem Hamas tóku þann 7. október síðastliðinn. Oft hafi ranglega verið sagt frá samningagerð en stjórnvöld myndu tilkynna um slíkt þegar tilefni verður til. Reuters greinir frá þessu.

Þá hafa bandarískir embættismenn einnig sagt lítið til í fréttaflutningi af samningnum, sem sagður var gerður í Katar fyrir milligöngu þarlendra stjórnvalda og Bandaríkjamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×