Innlent

Drónamyndir RÚV sýni mjög ó­lík­lega kviku

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Undarlegt rautt ljós sést inni í sprungunni í neðra horninu hægra megin.
Undarlegt rautt ljós sést inni í sprungunni í neðra horninu hægra megin. Skjáskot/RÚV

Rauðar ljóstírur sem sáust í drónaskoti í kvöldfréttatíma RÚV eru að sögn veðurfræðings mjög ólíklega kvika. Ekkert bendi til þess að gos sé hafið. 

Athygli vakti í Facebook-hópnum Jarðsöguvinum þegar einn meðlimur birti skjáskot úr kvöldfréttum RÚV sem sýndi sprunguna sem liggur í gegnum Grindavík. Ef vel er að gáð má sjá rauðar ljóstírur inni í sprungunni. 

Einar Hjörleifsson veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir mjög ólíklegt að um kviku ræði í samtali við Vísi. Engin ummerki um að kvikan sé komin svo grunnt séu til staðar. Þá segir hann að ef um kviku ræddi væri gasuppstreymi á svæðinu meira. „Við sjáum ekkert á okkar mælitækjum í dag sem bendir til þess að gos sé hafið,“ segir Einar. 

Hann telur að rauði bletturinn í myndefninu hafi frekar orðið til sjálfvirkri myndvinnslu, frekar en að vera kvika. 

Loks segir hann þann hluta sprungunnar sem um ræðir sé á jaðri kvikugangsins, því yrði gosop ólíklega staðsett þar færi að gjósa.

Hér má sjá rauðu ljóstírurnar sem um ræðir.Skjáskot/RÚV



Fleiri fréttir

Sjá meira


×