Skoðun

Á­byrgð Vestur­landa á fjölda­morðunum á Gasa

Einar Ólafsson skrifar

Þegar þetta er skrifað hefur í 45 daga verið haldið upp stöðugum sprengjuárásum á afgirt þéttbýlissvæði þar sem búa á þriðju milljón íbúa, íbúar sem eiga enga möguleika á að flýja undan sprengjuregninu. Myndir sýna heilu íbúðarhverfin í rúst, fréttir berast af árásum á sjúkrahús og meira og minna hefur verið lokað fyrir rafmagn og vatn og aðrar vistir, þar á meðal lyf og önnur mikilvæg sjúkragögn. Að minnsta kosti 13 þúsund manns, nær eingöngu óbreyttir borgarar, þar af meira en fimm þúsund börn, hafa verið drepin og talið er fjöldi fólks sé grafinn undir rústum, dáið eða dauðadæmt. 1,7 milljón manns hafa þurft að flýja heimili sín og er þó varla neinn staður að flýja á.

Sagan geymir dæmi um ógnarverk sem hið svokallaða „alþjóðasamfélag“ brást ekki við. Það hefur verið horft til þess með hryllingi og spurt: Af hverju var ekki brugðist við?

Átakanlegast dæmið er sennilega fjöldamorðin í Rúanda árið 1994 þegar milli 500 og 800 þúsund manns voru drepnir á hundrað dögum.

Bill Clinton, sem var forseti Bandaríkjanna árið 1994, kom í heimsókn til Rúanda árið 2012 og sagði við það tilefni að hann teldi það meðal sinna mestu mistaka sem forseti að bregðast ekki við þessum fjöldamorðum: „Ég held ekki að við hefðum getað stöðvað ofbeldið, en ég held við hefðum getað takmarkað það. Ég harma það“ (New York Times 4. 9. 2012).

Þó er það svo að Bandaríkin höfðu engin sérstök ítök í Rúanda á þessum tíma. Þau höfðu vissulega verið að skipta sér af ýmsu í Afríku, svo sem í Sómalíu, en báru enga ábyrgð gagnvart atburðum í Rúanda umfram aðra, nema kannski sem voldugasta ríki heims með afskipti víða um heim. Af vestrænum ríkjum var það Frakkland sem bar mesta ábyrgð gagnvart Rúanda. Um 1990 hófst borgarastríð milli Tútsa og Hútúa sem höfðu ráðið ríkjum frá því landið hlaut sjálfstæði. Fjöldamorðin hófust í apríl 1994 eftir að forsetinn hafði verið myrtur. Frakkar höfðu þá um nokkurt skeið haft mikil samskipti við forsetann og stjórn hans og studdu her Rúanda í átökunum við frelsishreyfingu Tútsa. Af vestrænum ríkjum voru það sem sagt Frakkar en ekki Bandaríkjamenn sem höfðu helst möguleika á að hafa áhrif á gang mála og vissulega reyndu þeir það lítillega. Rétt er að taka fram að hvorki ríkisstjórn Rúanda né herinn stóðu beinlínis fyrir fjöldamorðunum en gerðu þó ekkert til að stöðva þau. Þáttur Frakka í þessum atburðum hefur verið rannsakaður, bæði af hálfu franskra stjórnvalda og stjórnvalda í Rúanda og niðurstaðan er að viðbrögð þeirra hafi verið miklu vægari en efni stóðu til. Þó er umdeilanlegt hvaða möguleika þeir höfðu til að breyta gangi mála svo um munaði. En samt líklega meiri en Bandaríkin.

„Ég held ekki að við hefðum getað stöðvað ofbeldið, en ég held við hefðum getað takmarkað það. Ég harma það“, sagði Bill Clinton átján árum seinna. Vissulega er fjöldi myrtra á Gasa-svæðinu enn aðeins brot af þeim fjölda sem var myrtur í Rúanda 1994. Engu að síður er hér um fáheyrt ofbeldi gagnvart óbreyttum borgurum að ræða, yfir 13 þúsund manns drepnir á 45 dögum, nærri 300 á dag, þar af meira en fimm þúsund börn, auk annars sem áður er getið.

Rétt er að nefna að þær morðárásir sem gerðar voru frá Gasa inn í Ísrael 7. október hafa almennt verið fordæmdar, en hversu ógnvænlegar sem þær voru og hversu mjög sem þær kölluðu á viðbrögð geta þær aldrei réttlætt viðbrögð af þessu tagi. Það þarf sérlega tilfinningabrenglað fólk til að halda því fram.

En staða hins svokallaða alþjóðasamfélags er allt önnur hér en var í Rúanda árið 1994, einkum staða vestrænna ríkja með Bandaríkin í fararbroddi. Hér er árásaraðilinn, Ísrael, í einkar nánu sambandi við Bandaríkin. Milli Ísraels og NATO hefur verið mikil og góð samvinna um langt skeið og eitt fyrsta verk varnarmálaráðherra Ísraels eftir 7. október var að fara á fund kollega sinna í NATO. Ísrael telur sig til „hinna frjálslyndu lýðræðislegu Vesturlanda“ og hefur mikil samskipti við flest þeirra og þá ekki síst Evrópusambandið auk Bandaríkjanna.

Fyrstu viðbrögð þessara vinaríkja Ísraels eftir hryðjuverkaárásina voru eðlilega fordæming á henni og þeim sem hana frömdu og samúð með Ísrael. En það var algerlega fyrirsjáanlegt eftir 75 ára átakasögu Ísraels og Palestínu að viðbrögð Ísraels færu langt fram úr hófi og það kom líka í ljós nánast samdægurs. Eigi að síður héldu „hin frjálslyndu lýðræðislegu Vesturlönd“ áfram einhliða fordæmingu á Hamas og meiri og minni stuðningi við Ísrael. Í 45 daga hefur Ísrael látið sprengjum rigna á hið þéttbýla og afgirta Gasa-svæði og enn hafa Bandaríkin og önnur vestræn ríki ekkert gert til að draga úr ofbeldinu, hvað þá binda endi á það.

Vegna náinna samskipta við Ísrael bera Bandaríkin og önnur vestræn ríki, ekki síst aðildarríki NATO, þar á meðal Ísland, fulla ábyrgð á voðaverkunum á Gasa.

Og af mjög náttúrlegum ástæðum er afar hæpið að núverandi forseti Bandaríkjanna muni heimsækja Palestínu eftir átján ár og segjast harma það að hafa ekki takmarkað ofbeldið.

Höfundur er ljóðskáld sem hefur fylgst með málefnum Palestínu í hálfa öld.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×