Viðskipti erlent

Altman snýr aftur til OpenAI

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Microsoft var meðal þeirra fjárfesta sem lýstu yfir stuðningi við Altman.
Microsoft var meðal þeirra fjárfesta sem lýstu yfir stuðningi við Altman. Getty/Justin Sullivan

Sam Altman, einn stofnenda OpenAI, mun snúa aftur í forstjórastólinn aðeins dögum eftir að stjórn fyrirtækisins lét hann fjúka. Ákvörðunin um að láta Altman fara var harðlega mótmælt og niðurstaðan sú að stjórnarmeðlimum verður skipt út fyrir nýja.

„Ég hlakka til að snúa aftur til OpenAI,“ sagði Altman á X/Twitter þegar niðurstaðan lá fyrir. Sagði hann að allt sem hann hefði gert síðustu daga hefði miðað að því að halda teyminu á bak við fyrirtækið saman.

Brottrekstri Altman á föstudaginn var mótmælt bæði af fjárfestum og starfsmönnum, sem skrifuðu opið bréf honum til stuðnings. Ástæður brottrekstrarins voru sagðar trúnaðarbrestur milli Altman og stjórnar en einum stjórnarmanna snérist hugur á mánudag og undirritaði bréf starfsmannanna.

OpenAI sendi frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem greint var frá því að samkomulag hefði náðst um endurkomu Altman og að hluta stjórnarinnar yrði skipt út. Þá hefur Greg Brockman, einn stofnenda fyrirtækisins, greint frá því að hann muni sömuleiðis snúa aftur.

Hann hætti þegar Altman var látinn fara.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×