Enski boltinn

Barnsley rekið úr FA bikarnum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Barnsley fagnar marki gegn Horsham í leik liðanna í síðustu viku
Barnsley fagnar marki gegn Horsham í leik liðanna í síðustu viku vísir / getty images

Enska knattspyrnusambandið hefur rekið Barnsley úr FA bikarkeppninni eftir að félagið tefldi fram ólöglegum leikmanni í endurteknum leik 1. umferðar gegn utandeildarliðinu Horsham. 

Fyrri viðureign liðanna í 1. umferð keppninnar lauk með 3-3 jafntefli þann 3. nóvember. Viðureignin var því endurtekin þriðjudaginn 14. nóvember, Barnsley vann þann leik sannfærandi 3-0 en var engu að síður dæmt úr leik í FA bikarkeppninni vegna þess að leikmaður liðsins hafði ekki heimild til að spila. 

Barnsley hefur rétt til að áfrýja banninu en miðað við yfirlýsingu sem félagið gaf út í dag eru þeir ólíklegir til þess. Þar sagði að mistökin lægu hjá stjórnarmönnum, þeir gengust við brotinu og að félagið hafi verið algjörlega samvinnuþýtt í rannsókn knattspyrnusambandsins. Formaður Horsham, Kevin Borrett, sagði sömuleiðis í viðtali við SkySports að stjórnarmenn Barnsley hafi haft samband við hann og óskað þeim góðs gengis í keppninni. 

Yfirlýsingu enska knattspyrnusambandsins má lesa hér fyrir ofan. Hvergi kemur fram hver leikmaðurinn sem um ræðir sé og fjölmiðlar erlendis hafa ekki greint frá því. 

Horsham heldur því áfram í næsta umferð bikarsins og mætir þar Sutton, sem er í neðsta sæti League Two, fjórðu bestu deild Englands. Horsham er utandeildarlið í Isthmian League sem keppir á 7. efsta stigi fótboltans á Englandi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×