Enski boltinn

Setur sér það mark­mið að skora meira en Haaland á árinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfie May fagnar einu af fjölmörgum mörkum sínum fyrir Charlton Athletic.
Alfie May fagnar einu af fjölmörgum mörkum sínum fyrir Charlton Athletic. Getty/Tom West

Alfie May er ekki beint á milli tannanna á knattspyrnuáhugafólki en hann hefur engu að síður verið að spila mjög vel með liði Charlton Athletic á þessu tímabili.

May vakti athygli á sjálfum sér og afrekum sínum á árinu með því að lýsa því yfir að hann ætli sér að skora fleiri deildarmörk á árinu 2023 en norska stórstjarnan Erling Haaland.

Haaland hefur raðað inn mörkum með Manchester City í ensku úrvalsdeildinni sem og í öðrum keppnum. Þetta snýst um deildarmörkin í þessar tilbúnu samkeppni hjá May.

May er kominn með tólf mörk í fimmtán deildarleikjum með Charlton í ensku C-deildinni á þessu tímabili en hann skoraði einnig fimmtán mörk fyrir Cheltenham Town í sömu deild eftir áramót.

Hann hefur því skorað 27 deildarmörk í enska boltanum á árinu en Haaland er kominn með 28 mörk. Haaland meiddist á ökkla í landsliðsverkefni með Noregi og gæti því misst af einhverjum leikjum á næstunni.

„Ég er einu marki á eftir Erling Haaland á árinu 2023 svo ég vil gera betur en hann. Auðvitað veit ég það að hann er að gera þetta á hæsta stigi en í lok ársins vil ég hafa unnið hann. Það er gott að setja þér svona lítil markmið og ég kem líka nafninu mínu í umræðuna,“ sagði Alfie May við Sky Sports.

May er orðinn þrítugur og hefur alltaf spilað í ensku neðri deildunum. Hann er á góðri leið með að skora yfir tuttugu deildarmörk á þriðja tímabilinu í röð en hann fann heldur betur skotskóna sína fyrir rúmum tveimur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×