Fótbolti

Kerr með þrennu í sigri Chelsea

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Einu af þremur mörkum kvöldsins fagnað.
Einu af þremur mörkum kvöldsins fagnað. Chloe Knott/Getty Images

Sam Kerr skoraði þrennu þegar Chelsea lagði París FC í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Þá vann AS Roma 3-0 sigur á Ajax.

Hin ástralska Sam Kerr svífur um á bleiku skýi þessa dagana enda nýbúin að fara á skeljarnar og biðja kærustu sína um að giftast sér. Kerr hélt upp á það að hætti hússins, með því að skora öll mörkin í góðum sigri.

Það fyrsta kom eftir sléttan hálftíma en Lauren James fær heiðurinn að því marki. James hafði klúðrað algjöru dauðafæri ekki löngu áður en þerna fékk hún boltann úti vinstra megin, óð að marki gestanna áður en hún fór inn á völlinn og átti þessa stórbrotnu sendingu sem Kerr gat ekki gert annað við en að sparka í netið.

Thea Greboval jafnaði fyrir París FC með ágætum skalla eftir að markvörður Chelsea, Ann-Katrin Berger, gat ekki ákveðið hvort hún ætti að koma út í boltann eftir hornspyrnu gestanna. Staðan 1-1 í hálfleik.

Kerr kom heimaliðinu yfir á nýjan leik snemma í síðari hálfleik. Að þessu sinni batt hún enda á frábæra skyndisókn sem hófst vinstra megin á vellinum, þaðan fór boltinn yfir til hægri á hin sænsku Johönnu Rytting Kaneryd sem gaf fyrir markið og Kerr skilaði knettinum í netið.

Kerr fullkomnaði þrennu sína ekki löngu síðar eftir að langur bolti frá Berger í marki Chelsea rataði alla leið yfir vörn gestanna og allt í einu þurfti Kerr bara að lyfta boltanum yfir markvörð gestanna, sem hún og gerði.

Varamaðurinn Sophie Ingle gerði svo fjórða mark Chelsea í uppbótartíma, lokatölur 4-1. Chelsea er í 2. sæti D-riðils með 4 stig en BK Häcken er á toppnum með 6 stig. Real Madríd er með eitt og París rekur lestuna án stiga.

Þá vann AS Roma einstaklega öruggan 3-0 sigur á Ajax. Valentina Giacinti skoraði tvívegis snemma í leiknum og Manuela Giugliano gulltryggði sigurinn í upphafi síðari hálfleiks.

AS Roma er á toppi C-riðils með 4 stig líkt og Bayern München sem vann París Saint-Germain 1-0 á útivelli þökk sé stoðsendingu Glódísar Perlu Viggósdóttur. Ajax er með 3 stig en PSG er án stiga.


Tengdar fréttir

Gló­dís Perla lagði upp sigur­markið í París

Bayern München lagði París Saint-Germain á útivelli í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu í kvöld. Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði gestanna, lagði upp sigurmarkið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×