Sport

Gagn­rýnir son sinn fyrir „djöfulli heimsku­legt“ plan

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
John Fury smellir kossi á son sinn, Tyson, á blaðamannafundi fyrir bardagann gegn Francis Ngannou.
John Fury smellir kossi á son sinn, Tyson, á blaðamannafundi fyrir bardagann gegn Francis Ngannou. getty/Justin Setterfield

Faðir hnefaleikakappans Tysons Fury, John Fury, hefur gagnrýnt hann fyrir það sem hann kallar heimskulegt plan í bardaganum gegn Francis Ngannou.

Fury sigraði UFC-kappann fyrrverandi, Ngannou, í boxbardaga í Sádi-Arabíu í síðasta mánuði. Sigurinn var umdeildur en Ngannou stóð heldur betur uppi í hárinu á Fury og sló hann meðal annars niður í þriðju lotu.

John hefur nú gagnrýnt son sinn fyrir heimskulegt plan gegn Ngannou og sagt að sonurinn hafi ekki verið í nógu góðu formi. Og hann verði að breyta miklu ef hann ætli að sigra Oleksandr Usyk í næsta bardaga sínum.

„Það var margt rangt við þetta. Líkamlegt ásigkomulag hans hefði getað verið miklu betra. Hann var ekki með neitt plan. Á endanum gerir hann sitt en þetta hefði getað verið miklu betra,“ sagði John.

„Að mínu mati æfði hann ekki eins og hann hefði átt að gera fyrir bardagann. Ekki líkamlega heldur hvað varðar planið. Hann hefði átt að boxa og hreyfa sig, vera klár en hvað gerðist? Hann reyndi að brjóta tíu tonna jarðýtu með plasthamri.“

John hélt áfram að úthúða syni sínum og planinu hans í bardaganum gegn Ngannou. 

„Strax frá byrjun sást að líkamlegt ásigkomulag hans var ekki nógu gott Hann var einhverjum öðrum stað. Ég veit ekki hvort hann gat ekki gírað sig upp fyrir bardagann. Þetta var ekki Tyson í hringnum. Hann gerði samt nóg til að vinna og hann vann bardagann sama hvað fólki finnst. En hann gerði sér erfitt fyrir með þessu plani. Það var djöfulli heimskulegt,“ sagði John.

Fury mætir Usyk í titilbardaga í þungavigt 17. febrúar á næsta ári.

Box

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×