Þetta staðfestir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við Vísi. Hann segir engan vera kominn á vettvang og því búi hann ekki yfir frekari upplýsingum en að rútuslys hafi orðið á heiðinni.
Hann hafi ekki fengið upplýsingar um að önnur farartæki tengist slysinu.
Þyrlan eldsnögg á staðinn
Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir í samtali við Vísi að áhöfn þyrlu gæslunnar hafi verið á æfingu við Bifröst þegar kall barst frá Lögreglunni á Norðurlandi vestra vegna slyssins.
Þyrlunni hafi verið flogið beint norður og áhöfnin sé nú á vettvangi að skoða aðstæður. Fyrstu upplýsingar sem Ásgeir býr yfir bendi til þess að 29 hafi verið um borð í rútunni.
Ásgeir segir í síðara samtali við Vísi upp úr 15:30 að þyrlan sé farin af vettvangi og ekki hafi verið talin þörf á því að flytja neinn með henni á sjúkrahús.
Hált og hvasst á heiðinni
Að sögn Vignis Heiðarssonar, vegfaranda sem kom að slysinu, var töluverð hálka á Holtavörðuheiði og bálhvasst. Hann hafi sjálfur haft áhyggjur af eigin bíl þar sem hann var með vagn í eftirdragi.
Hann segir að um erlenda ferðamenn hafi verið að ræða og svo hafi virst að enginn væri alvarlega slasaður. Þá hafi viðbragðsaðilar verið mættir á vettvang, minnst einn lögreglubíll og einn sjúkrabíll.
Fréttin hefur verið og verður uppfærð.