Innlent

Isaac kominn aftur heim: „Get ekki lýst því hvað ég er þakk­látur“

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Isaac ásamt fjölda barna sem mættu á fótboltaleik til stuðnings Isaac. Samfélagið í Laugardalnum segir Isaac vera ómetanlegt og hann er spenntur að snúa aftur til starfa hjá Þrótti.
Isaac ásamt fjölda barna sem mættu á fótboltaleik til stuðnings Isaac. Samfélagið í Laugardalnum segir Isaac vera ómetanlegt og hann er spenntur að snúa aftur til starfa hjá Þrótti. Vísir/Steingrímur Dúi

Isaac Kwateng, vallarstjóri Þróttar sem vísað var úr landi 16. október síðastliðinn, er mættur aftur heim til Íslands. Hann fékk dvalar- og atvinnuleyfi í upphafi mánaðar og kveðst eiga erfitt með að lýsa þakklæti sínu gagnvart vina sinna sem börðust fyrir rétti hans til að dvelja hér á landi.

„Ég er himinlifandi með að vera kominn aftur heim,“ segir Isaac í samtali við Vísi, Mbl.is greindi fyrst frá heimkomunni. Hann segir að ferðin aftur til Gana hafi verið hryllileg lífsreynsla.

„En nú er ég kominn aftur og lít bara björtum augum fram á veginn. Ég er spenntur fyrir framhaldinu,“ segir hann

Á miðvikudag var allt til reiðu til að halda aftur heim á leið. Eins og áður segir var Isaac vísað úr landi 16. október síðastliðinn en hann kom hingað til lands árið 2017 sem umsækjandi um alþjóðlega vernd. Degi áður mættu um það bil sjö hundruð manns á styrktar­leik sem Þróttur stóð að fyrir Isa­ac í Laugar­dalnum.

Isaac mun hefja störf á ný sem vallarstjóri Þróttar.

„Ég er virkilega spenntur fyrir því. Þetta er frábært samfélag þarna, í raun fjölskylda mín. Ég er virkilega spenntur að snúa aftur,“ segir Isaac og bætir við:

„Ég get í raun ekki lýst því hvað ég er þakklátur, ég kann að meta allt sem þetta fólk hefur gert fyrir mig,“ segir Isaac að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×