Enski boltinn

Ten Hag: „Ekki sann­gjarnt að bera Garnacho saman við Roon­ey og Ron­aldo“

Siggeir Ævarsson skrifar
Erik ten Hag var brosmildur á blaðamannafundinum eftir leik.
Erik ten Hag var brosmildur á blaðamannafundinum eftir leik. Vísir/Getty

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, sat fyrir svörum á blaðamannafundi eftir 0-3 útisigur liðsins gegn Everton í dag. Hann lagði áherslu á að halda mönnum áfram jarðtengdum.

„Þetta var góð frammistaða í dag. Við byrjuðum vel og skoruðum frábært mark. Ekki bara afgreiðslan sjálf sem var mögnuð heldur undirbúningurinn allur. En mér fannst við vera of „passífir“ í fyrri hálfleik. Við slökuðum of mikið á og ég var ekki ánægður þann hluta leiksins en í seinni hálfleik voru við miklu betri og skoruðum tvö góð mörk.“

Stuðningsmenn Everton eru eðli málsins samkvæmt sótillir yfir stöðu liðsins en stigafrádrátturinn virðist þó hafa þjappað fólki í kringum liðið saman. Ten Hag sagði að hans lið hefði þegar mætt á erfiða útivelli og ætti eftir að gera það aftur og hann hafði ekki áhyggjur.

„Við höfum verið að spila á erfiðum útivöllum eins og í Kaupmannahöfn og ég held að frammistaðan okkar þar þangað til að við fengum rauða spjaldið sýni hvernig við ætlum að spila í þessum leikjum.“

„Það er auðvitað sérstakt að koma hingað eftir það sem þessi klúbbur hefur gengið í gegnum sem er mjög sorglegt. Þú veist að þeir eru reiðir og liðið fær aukinn eldmóð úr þessum erfiðleikum.“

Hann var að lokum spurður um samanburð á draumamarki Garnacho við mörk sem Wayne Rooney og Cristiano Ronaldo hafa skorað í gegnum tíðina. Ten Hag taldi að slíkur samanburður væri ekki tímabær.

„Það er ekki sann­gjarnt að bera Garnacho saman við Roon­ey og Ron­aldo, það er ekki réttmætt. Þeir eru allir einstakir leikmenn og spila á sinn hátt en Garnacho gæti vel orðið leikmaður á sama skala og þeir en hann verður að vinna fyrir því og halda áfram að bæta sinn leik og halda stöðugleika. Hingað til hefur hann ekki náð því en hann á klárlega möguleika á að ná á sama stall og þeir.“

Viðtalið í heild má sjá hér að neðan:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×