Enski boltinn

Keane segir um­mæli Ten Hags „algjört hel­vítis kjaft­æði“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erik ten Hag tók út leikbann þegar Manchester United sigraði Everton í gær.
Erik ten Hag tók út leikbann þegar Manchester United sigraði Everton í gær. getty/Robbie Jay Barratt

Roy Keane gaf lítið fyrir það þegar Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, hrósaði Bruno Fernandes fyrir að leyfa Marcus Rashford að taka vítaspyrnu í 0-3 sigri liðsins á Everton í gær.

Fernandes, sem er vítaskytta United, leyfði Rashford að taka vítaspyrnu í stöðunni 0-1 í seinni hálfleik. Rashford hefur verið ískaldur á tímabilinu en skoraði af öryggi úr vítinu.

Eftir leikinn hrósaði Ten Hag Fernandes fyrir leiðtogahæfileika þegar hann leyfði Rashford að taka vítið. Keane var ekki hrifinn af þessum ummælum hollenska stjórans.

„Hann er að hrósa Bruno fyrir að gefa vítið frá sér. Algjört helvítis kjaftæði að segja þetta. United er í 6. sæti. Ef þú ferð aftur í tímann hefðirðu skammast þín ef liðið væri í 6. sæti,“ sagði Keane.

„En þeir virðast ánægðir með að vera í 6. sæti. Þeir eiga langt í land. United verður að vera að berjast við bestu liðin eins og Liverpool, Manchester City og Arsenal. Þetta er ekki nógu gott miðað við hæfileikana sem búa í liðinu. Þeir eru komnir í ágætis stöðu en ástæðan fyrir því að þú spilar fyrir Manchester United er til að spila við þessi bestu lið.“

United hefur unnið þrjá deildarleiki í röð án þess að fá á sig mark og fimm af síðustu sex í ensku úrvalsdeildinni. Næsti leikur liðsins er gegn Galatasaray í Meistaradeild Evrópu á miðvikudaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×