Enski boltinn

Týndi GPS-mæli þegar hann kastaði treyjunni sinni upp í stúku

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Joël Veltman var nálægt því að glata GPS-mælinum á treyju sinni fyrir fullt og allt.
Joël Veltman var nálægt því að glata GPS-mælinum á treyju sinni fyrir fullt og allt. getty/Steve Bardens

Joël Veltman, leikmaður Brighton, þurfti að finna stuðningsmanninn sem fékk treyjuna hans eftir leikinn gegn Nottingham Forest í flýti.

Brighton vann leikinn, 2-3, og Mávarnir fögnuðu stigunum þremur vel og innilega með stuðningsmönnum sínum enda fyrsti sigur þeirra í sjö leikjum í ensku úrvalsdeildinni.

Veltman kastaði meðal annars treyju sinni til heppins stuðningsmanns upp í stúku. Hann áttaði sig skömmu síðar á því að GPS-mælirinn sem allir leikmenn í ensku úrvalsdeildinni og víðar spila með hafði fylgt með treyjunni.

Veltman þurfti því að snúa aftur út á völl og gera dauðaleit að treyjunni til að endurheimta GPS-mælinn. Stuðningsmaðurinn var farinn af vellinum en mælirinn skilaði sér til Veltmans á endanum.

Brighton er í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 22 stig eftir þrettán leiki. Næsti leikur liðsins er gegn AEK Aþenu í Evrópudeildinni á fimmtudaginn. Á sunnudaginn sækir Brighton svo Chelsea heim í ensku úrvalsdeildinni.

Veltman, sem er 31 árs varnarmaður, kom til Brighton frá Ajax fyrir þremur árum. Hann hefur leikið 28 landsleiki fyrir Holland og skorað tvö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×