Fótbolti

Guardiola minnist ó­trú­legs Venables

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pep Guardiola horfir upp til Terry Venables.
Pep Guardiola horfir upp til Terry Venables.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, vottaði Terry Venables virðingu sína á blaðamannafundi í gær.

Eftir að Venables lést um helgina deildu margir mynd frá 1986 eftir að Barcelona undir stjórn Venables tryggði sér sæti í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu eftir sigur á IFK Gautaborg í vítaspyrnukeppni. 

Þar sjást leikmenn Barcelona halda á Venables og við hlið þeirra starir boltastrákur af lotningu á Venables. Þetta var fimmtán ára gamall Guardiola. Hann átti seinna eftir að spila með og þjálfa Barcelona eins og Venables gerði á árunum 1984-87. Undir hans stjórn urðu Börsungar Spánarmeistarar 1985.

„Áhrif hans voru ótrúleg,“ sagði Guardiola um tíma Venables hjá Barcelona.

„Hann innleiddi nokkuð sem hafði aldrei sést áður, sérstaklega í tengslum við pressu og föst leikatriði. Hann kom með mjög margt. Sem stuðningsmaður Barcelona færði hann okkur titilinn eftir ellefu ára bið. Þetta var í fyrsta sinn sem ég sá okkur vinna La Liga. Það var ekki mögulegt í mörg ár.“

Guardiola talaði afar vel um Venables þótt hann hafi ekki þekkt hann persónulega.

„Hann var sannur herramaður. Ég var boltastrákur svo ég var ekki í sambandi við hann. Ég lét leikmenn hans bara fá boltann,“ sagði Guardiola.

„Því miður gat hann ekki unnið Meistaradeildina gegn Steaua Búkarest. Þetta er mikill missir fyrir enskan fótbolta, fjölskyldu hans og eiginkonu.“

Venables var áttræður þegar hann lést. Hann er hvað þekktastur fyrir að hafa stýrt enska landsliðinu á árunum 1994-96.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×