Viðskipti innlent

Nýtt skip til Grinda­víkur fyrir sjó­manna­dag

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Gunnar Tómasson – framkvæmdastjóri Þorbjarnar, Friðrik J Arngrímsson,, Hrannar Jón Emilsson, Ottó Hafliðason, Hjörtur Ingi Eiríksson, Sævar Birgisson, Ægir Óskar Gunnarsson og Þórhallur Gunnlaugsson.
Gunnar Tómasson – framkvæmdastjóri Þorbjarnar, Friðrik J Arngrímsson,, Hrannar Jón Emilsson, Ottó Hafliðason, Hjörtur Ingi Eiríksson, Sævar Birgisson, Ægir Óskar Gunnarsson og Þórhallur Gunnlaugsson.

Útgerðarfélagið Þorbjörn hf. í Grindavík sjósetti nýtt skip, Huldu Björnsdóttur GK-11, á Spáni í gær. Um er að ræða fyrstu nýsmíðina í yfir hálfa öld hjá fyrirtækinu. Stefnt er á að skipið komi siglandi inn í Grindavíkurhöfn fyrir sjómannadag.

Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að um sé að ræða nýjan ísfiskstogara. Skipið var sjósett í Gijón á Spáni í gær. Fram kemur að skipið sé 58 metra langt og 13,6 metra breitt. Það er fyrsta nýsmíði Þorbjarnar síðan árið 1967.

Togarinn er nefndur í höfuðið á Huldu Björnsdóttur sem stofnaði Þorbjörn ásamt eiginmanni sínum Tómasi Þorvaldssyni, þann 24. nóvember árið 1953. Hulda vann hjá fyrirtækinu alla tíð.

„Nú er búið að sjósetja skrokkinn. Næsta skref er að setja á hann yfirbygginguna og setja upp þann búnað sem þarf. Við reiknum með því að þetta klárist allt með vorinu,“ segir Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnar. „Þótt það hafi gengið á ýmsu í Grindavík síðustu mánuði þá erum við hvergi nærri af baki dottin. Við stefnum á að koma siglandi á nýju skipi inn í Grindavíkurhöfn fyrir sjómannadaginn og vonandi getum við hafið veiðar síðsumars.“

Sjálfvirk flokkun á aflanum fer fram á vinnsludekki skipsins og frágangur aflans í fiskikör fer fram á einum stað á vinnsludekkinu.

Rík áhersla á að draga úr orkunotkun

Undanfarin ár hefur Þorbjörn hf. tekið úr rekstri þrjú línuskip og tvo frystitogara en í staðinn hefur fyrirtækið keypt frystitogara frá Grænlandi og ísfisktogara frá Vestmannaeyjum. Nú heldur Þorbjörn hf. áfram endurnýjun skipaflota fyrirtækisins.

Hulda Björnsdóttir GK-11 er hönnuð af Sævari Birgissyni skipatæknifræðingi hjá Verkfræðistofunni Skipasýn ehf. í nánu samstarfi við starfsmenn Þorbjörns. Skipasmíðastöðin Armon í Gijón sá um smíðina.

Fram kemur í tilkynningu félagsins að við hönnun skipsins hafi verið lögð rík áhersla á að draga úr orkunotkun og þar með að umhverfisáhrif þess verði sem minnst. Aðalvél skipsins, sem verður um 2400 KW, mun knýja skrúfu sem verður 5 metrar í þvermál. Stærð og snúningshraði skrúfunnar verður lægri en áður hefur þekkst í eldri fiskiskipum af sambærilegri stærð. Skipið verður þess vegna sérlega sparneytið og því í hópi sparneytnustu skipa í þessum flokki. Þá verður skipið búið til veiða með tveimur botnvörpum samtímis og togvindurnar knúnar rafmagni.

Í hönnun skipsins er sérstaklega litið til sjóhæfni þess með tilliti til öryggis og bættrar vinnuaðstöðu.

Í hönnun skipsins er sérstaklega litið til sjóhæfni þess með tilliti til öryggis og bættrar vinnuaðstöðu. Áhersla er lögð á að aðbúnaður áhafnar verði sem bestur og allir skipverjar hafa sínar eigin vistarverur og hreinlætisaðstöðu, að því er segir í tilkynningunni.

Þar segir ennfremur að mesta breytingin frá eldri skipum Þorbjarnar hf. varðandi vinnslu og meðferð aflans sé sú að sjálfvirk flokkun á aflanum fer fram á vinnsludekki skipsins og frágangur aflans í fiskikör fer fram á einum stað á vinnsludekkinu. Þaðan fer aflinn í lyftum niður í lest og verður lestarvinnunni eingöngu sinnt af fjarstýrðum lyftara sem rennur á loftbita í lest skipsins. Auk þess að annast flutning og stöflun á fiskikörum verður lyftarinn notaður við losun skipsins þegar það kemur til hafnar.

Skipið verður sérlega sparneytið.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×