Erlent

Eigin­kona Budanovs á sjúkra­húsi vegna eitrunar

Samúel Karl Ólason skrifar
Kyrylo Budanov, yfirmaður leyniþjónustu úkraínska hersins (GUR) hefur lengi þótt þyrnir í síðu Rússa.
Kyrylo Budanov, yfirmaður leyniþjónustu úkraínska hersins (GUR) hefur lengi þótt þyrnir í síðu Rússa. EPA/ROMAN PILIPEY

Marianna Budanova, eiginkona Kyrylo Budanov, yfirmanns leyniþjónustu úkraínska hersins (GUR), er sögð vera á sjúkrahúsi eftir að eitrað var fyrir henni. Eiginmaður hennar hefur lifað af fjölmörg banatilræði á undanförnum árum.

Kyrylo Budanov var á árum áður sérsveitarmaður sem er sagður hafa staðið fyrir þó nokkrum vel heppnuðum aðgerðum gegn Rússum og aðskilnaðarsinnum í austurhluta Úkraínu. Hann var gerður að herforingja þegar hann var 35 ára gamall og hefur reynst þyrnir í síðu Rússa frá því innrás þeirra hófst í febrúar í fyrra.

Kyiv Post segir Budanov, sem er 37 ára gamall, hafa lifað af minnst tíu banatilræði á undanförnum árum. Í einu slíku slasaðist hann alvarlega þegar bíll hans var sprengdur í loft upp.

Budanov er eftirlýstur í Rússlandi fyrir hryðjuverk. Rússar hafa sakað hann um að bera ábyrgð á morðum á rússnesku fólki í Rússlandi. Sjálfur hefur Budanov heitið því opinberlega að hann muni halda áfram að bana Rússum, hvar sem er í heiminum, þar til Úkraína hefur borið sigur úr býtum.

Talið banatilræði

Úkraínski miðillinn Babel, sagði frá því í morgun að Budanova, sem er þrítug, hefði verið flutt á sjúkrahús með þungmálmaeitrun. Heimildarmenn miðilsins segja að líklega hafi verið banatilræði að ræða, þar sem reynt var að eitra fyrir tiltekinni manneskju.

Ukrainska Pravda hefur eftir sínum heimildarmönnum að líklegast hafi verið eitrað fyrir Budanova í gegnum mat sem hún borðaði. Hún hefur búið með eiginmanni sínum á skrifstofum GUR í Kænugarði, samkvæmt því sem Budanov sagði nýlega í viðtali.

Rússum hefur ekki verið kennt um hið meinta banatilræði og ekki liggur fyrir hvort það hafi beinst gegn Budanov.

Kiyv Post segir eitrunina hafa verið staðfesta af heimildarmanni miðilsins innan GUR. Heimildarmaðurinn sagði Budanova hafa leitað fljótt til læknis, sem hafi hjálpað mjög.

Budanova þykir ekki í lífshættu, samkvæmt fjölmiðlum í Úkraínu, en mun hafa verið lasin um nokkuð skeið.


Tengdar fréttir

Vaknaði við sprengingar meðan kollegarnir eyddu nóttinni í sprengju­byrgi

Sendiherra Íslands gagnvart Úkraínu segir óhugnanlegt að hafa vaknað upp við sprengjudrunur í Kænugarði í gærmorgun, þegar Rússar gerðu umfangsmikla drónaárás á borgina. Úkraínumenn minntust þess í gær að 90 ár eru liðin frá hungurmorðum Rússa á milljónum Úkraínumanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×