Enski boltinn

Everton á­frýjaði þyngsta dómnum

Sindri Sverrisson skrifar
Stuðningsmenn Everton mótmæltu sumir dómnum fyrir leikinn við Manchester United um síðustu helgi, og telja hann til marks um spillingu.
Stuðningsmenn Everton mótmæltu sumir dómnum fyrir leikinn við Manchester United um síðustu helgi, og telja hann til marks um spillingu. EPA-EFE/ADAM VAUGHAN

Enska knattspyrnufélagið Everton hefur áfrýjað dómnum sem fól í sér að liðið missti tíu stig á yfirstandandi leiktíð í ensku úrvalsdeildinni.

Everton hlaut tíu stiga refsingu, þyngsta dóm í sögu ensku úrvalsdeildarinnar, vegna brota á reglum um fjárhagslegt aðhald. Everton tapaði 124,5 milljónum punda á þriggja ára tímabili en félög mega ekki tapa meira en 105 milljónum punda.

Félagið viðurkenndi brot sín en sagði ákvörðun óháðu nefndarinnar um svo þunga refsingu algjört áfall og vonbrigði.

Samkvæmt frétt BBC er ljóst að áfrýjunin verður tekin fyrir áður en að þessu keppnistímabili lýkur. Vegna dómsins féll liðið niður úr 14. sæti í það nítjánda og situr því í fallsæti, fimm stigum frá næsta örugga sæti.

Everton listaði upp sex hluti sem hluta af vörn sinni áður en dómurinn var kveðinn, og benti meðal annars á mál landsliðsmannsins Gylfa Þórs Sigurðssonar sem var leikmaður félagsins þegar hann var handtekinn grunaður um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi.

Aðeins tvisvar áður hafa stig verið dregin af liði í ensku úrvalsdeildinni, frá stofnun hennar árið 1992. Þrjú stig voru dregin af Middlesbrough fyrir að mæta ekki til leiks gegn Blackburn Rovers tímabilið 1996-97 og níu stig voru dregin af Portsmouth eftir að félagið fór í greiðslustöðvun 2009-10.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×