Menning

Þessir eru til­nefndir til hinna Ís­lensku bók­mennta­verð­launa

Jakob Bjarnar skrifar
Með fullri virðingu fyrir öðrum flokkum er það ævinlega skáldsagnaflokkurinn sem mesta athygli vekur. Þessi fimm fá tilnefningu í ár: Steinunn Sigurðardóttir, Vilborg Davíðsdóttir, Bjarni M. Bjarnason, Auður Ava Ólafsdóttir, og Eiríkur Örn Norðdahl.
Með fullri virðingu fyrir öðrum flokkum er það ævinlega skáldsagnaflokkurinn sem mesta athygli vekur. Þessi fimm fá tilnefningu í ár: Steinunn Sigurðardóttir, Vilborg Davíðsdóttir, Bjarni M. Bjarnason, Auður Ava Ólafsdóttir, og Eiríkur Örn Norðdahl.

Tilnefningar til Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans og Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2023 voru kynntar nú rétt í þessu, í Eddu, húsi íslenskra fræða.

Í tilkynningu segir að bæði Blóðdropinn og Hin íslensku bókmenntaverðlaun, verði afhent um mánaðamótin janúar-febrúar á komandi ári af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni. Formenn dómnefndanna fjögurra, Hjalti Freyr Magnússon, Kristján Sigurjónsson, Steingerður Steinarsdóttir og Steinunn Valdís Óskarsdóttir munu koma saman ásamt forsetaskipuðum formanni, Kristínu Ingu Viðarsdóttur, og velja einn verðlaunahafa úr hverjum flokki. Verðlaunaupphæðin er ein milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk. Félag íslenskra bókaútgefenda kostar verðlaunin.

Íslensku bókmenntaverðlaunin voru fyrst veitt árið 1989 og má sjá yfirlit yfir verðlaunahafa fyrri ára hér. Verðlaununum er ætlað að draga fram athyglisverðustu útgáfubækur hvers árs. 

Þetta er í 35. sinn sem tilnefnt er til verðlaunanna. Gaman er frá því að segja að í flokki barna- og ungmennabóka er að finna yngsta tilefnda skáldið frá upphafi; Embla Bachmann er aðeins 17 ára gömul.

Félag íslenskra bókaútgefenda gerði samkomulag við Íslenska glæpafélagið árið 2022 um að taka yfir verklega framkvæmd Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans ásamt því að kosta verðlaunin með sama hætti og Íslensku bókmenntaverðlaunin. Handhafi Blóðdropans verður, líkt og áður, framlag Íslands til norrænu glæpasagnaverðlaunanna Glerlykilsins.

Hér neðar má finna upplýsingar um hin tilnefndu verk og með fylgja umsagnir dómnefnda.


Tilnefnd til Blóðdropans

Steindór Ívarsson

Blóðmeri

Útgefandi: Storytel og Sögur útgáfa

Spennandi frásögn af rannsókn á dularfullum og óhugnanlegum morðum í Reykjavík nútímans, sem tengjast ódæðisverki í fortíðinni. Vel er sagt frá framvindu rannsóknarinnar og hvernig ógnvekjandi atburðir grípa inn í hversdagstilveru fólks, sem virðist ofurvenjulegt. Spennunni er haldið fram á síðustu blaðsíðu.

...

Stefán Máni

Borg hinna dauðu

Útgefandi: Sögur útgáfa

Vel heppnaður spennutryllir þar sem ein litríkasta persóna íslenskra glæpasagna leysir úr flóknu sakamáli í kappi við tímann. Sögunni vindur áfram með myndrænum og áreynslulausum hætti. Sjónarhorninu er einnig beint að óþolandi þjóðfélagsmeini og krefjandi fjölskyldulífi lögreglumannsins. Afraksturinn er vönduð glæpasaga sem heldur lesandanum á tánum frá upphafi til enda.

...

Eva Björg Ægisdóttir

Heim fyrir myrkur

Útgefandi: Veröld

Vel sögð saga með fjölbreyttu, breysku persónugalleríi og slunginni atburðarás. Sögusviðið er áhugavert og sagan er í senn glæpa- og spennusaga, sálfræðitryllir, fjölskyldudrama og íslensk samfélagslýsing á seinni hluta síðustu aldar. Höfundur sáir fjölda efasemda í hug lesanda þannig að hann grunar allt og alla söguna á enda.

...

Skúli Sigurðsson

Maðurinn frá São Paulo

Útgefandi: Drápa

Nýstárleg saga þar sem sögulegum atburðum og raunverulegum persónum úr mesta hildarleik sögunnar er fléttað saman við íslenskt samfélag á 8. áratug siðustu aldar. Höfundur vandar vel til verka og sagan hefur yfir sér trúverðugan blæ þrátt fyrir að atburðarásin sé framandi. Spennandi og grípandi frásögn, sem lesandinn getur vart lagt frá sér fyrr en ráðgátan leysist.

...

Arnaldur Indriðason

Sæluríkið

Útgefandi: Vaka Helgafell

Firnagóð flétta þar sem þræðir spillingar við úrlausn gamals morðmáls vefast saman við tortryggni kaldastríðsáranna og manndráps í nútímanum. Umhverfis- og samfélagslýsingar áhrifaríkar og persónusköpun hreint afbragð.

...

Dómnefnd skipuðu:

Björn Ingi Óskarsson, Kristján Sigurjónsson, formaður dómnefndar,  og Mjöll Snæsdóttir.


Tilnefnd í flokki barna- og ungmennabóka

Gunnar Helgason og Rán Flygenring myndhöfundur

Bannað að drepa

Útgefandi: Mál og menning

Stórkostlega fyndin, einlæg og átakanleg frásögn sem spilar á allan tilfinningaskalann. Sagan, sem tekur áreynslulaust á málefnum líðandi stundar, er skemmtilega myndlýst, auðlesin og persónusköpun höfundar einstök.

...

Sævar Helgi Bragason og Elías Rúni myndhöfundur

Vísindalæsi - Hamfarir

Útgefandi: JPV útgáfa

Hnyttin og fræðandi bók um áhrifamátt hamfara, svo sem tilurð tungls og jarðar, þróun súrefnis og örlög risaeðla. Einstaklega vel myndlýst frásögn sem hvetur til umhugsunar um örlög jarðarinnar og hvort við getum enn haft einhver áhrif.

...

Hildur Knútsdóttir

Hrím

Útgefandi: JPV útgáfa

Vel skrifuð og heillandi þroskasaga sem fjallar um erfiða lífsbaráttu, hugrekki, ástina og trúna á sjálfan sig í heimi sem er svo nálægt okkur en samt svo fjarri. Höfundur býr til mjög trúverðugan hugarheim og tekst að halda lesandanum spenntum frá upphafi til enda.

...

Arndís Þórarinsdóttir og Hulda Sigrún Bjarnadóttir

Mömmuskipti

Útgefandi: Mál og menning

Frumleg saga sem fjallar á meinfyndinn en einlægan hátt um líf barna hinna svokölluðu áhrifavalda. Hvers virði er einkalífið? Er hægt að setja það upp í súlurit og kökur? Hve mikið ætlum við að láta snjalltækin stjórna lífi okkar?

...

Embla Bachmann

Stelpur stranglega bannaðar!

Útgefandi: Bókabeitan

Einföld en áhrifarík saga sem fjallar á lipran hátt um flóknar tilfinningar. Dásamleg og djúp persónusköpun með skemmtilegum lýsingum sem hrífa lesandann með sér. Glæsileg frumraun höfundar.

...

Dómnefnd skipuðu:

Ásgerður Júlíusdóttir, Hjalti Freyr Magnússon, formaður dómnefndar, og Hrönn Sigurðardóttir Erludóttir.


Tilnefnd í flokki fræðibóka og rita almenns efnis

Þórður Helgason

Alþýðuskáldin á Íslandi - Saga um átök

Útgefandi: Hið íslenska bókmenntafélag

Tímamótaverk og mikill fróðleikur saman dreginn um efni sem hefur ekki mikið verið fjallað um til þessa. Vel skrifuð bók.

...

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir

Ég verð aldrei ungfrú meðfærileg - Baráttusaga Guðrúnar Jónsdóttur

Útgefandi: Vaka Helgafell

Áhrifarík bók þar sem Guðrún hlífir hvorki sjálfri sér né öðrum. Skrifuð af ástríðu fyrir efninu og fjallar um ævistarf konu í þágu kvenna.

...

Elsa E. Guðjónsson og Lilja Árnadóttir

Með verkum handanna - Íslenskur refilsaumur fyrri alda

Útgefandi: Þjóðminjasafn Íslands

Glæsileg bók og ríkulega myndskreytt. Fallegt og veglegt rit sem vitnar um ríkt menningarstarf kvenna á fyrri tímum. Í bókinni er fjallað á greinargóðan hátt um þann stórbrotna menningararf sem klæðin eru.

...

Haraldur Sigurðsson

Samfélag eftir máli - Bæjarskipulag á Íslandi og fræðin um hið byggða umhverfi

Útgefandi: Sögufélag

Glæsilegt verk þar sem höfundi tekst að fjalla um breytinguna úr sveit í borg á aðgengilegan og læsilegan hátt. Vandað yfirlitsverk um skipulagsmál.

...

Guðmundur Magnússon

Séra Friðrik og drengirnir hans – Saga æskulýðsleiðtoga

Útgefandi: Ugla útgáfa

Yfirgripsmikil bók sem byggir á ítarlegri rannsóknarvinnu og skoðun á viðamiklum skjala og bréfasöfnum. Höfundur lætur heimildirnar tala sínu máli og lætur lesanda eftir að draga ályktanir.

...

Dómnefnd skipuðu:

Bessý Jóhannsdóttir, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður dómnefndar og Þorvaldur Sigurðsson.


Tilnefnd í flokki skáldverka

Steinunn Sigurðardóttir

Ból

Útgefandi: Mál og menning

Margslungin, þétt og spennandi örlagasaga. Djúpri sorg og söknuði er lýst af einstakri næmni og listfengi. Persónusköpunin er einkar vel heppnuð og tengingu manns og náttúru gerð skil á athyglisverðan hátt. Ólgandi tilfinningar persóna eiga sér samhljóm í náttúruöflunum þegar sár leyndarmál koma í ljós.

...

Auður Ava Ólafsdóttir

DJ Bambi

Útgefandi: Benedikt bókaútgáfa

Áhrifamikil skáldsaga skrifuð af miklu næmi og innsæi. Höfundur veltir upp heimspekilegum tilvistarspurningum af mennsku og hlýju. Ljóðrænn textinn er hrífandi fallegur og kíminn. Persónurnar eru eftirminnilegar og smeygja sér inn í hjörtu lesenda. Leikandi létt, listræn og hugmyndarík saga um óvænt kraftaverk hversdagslífsins á línunni milli lífs og dauða.

...

Bjarni M. Bjarnason

Dúnstúlkan í þokunni

Útgefandi: Veröld

Vel uppbyggð og fallega skrifuð söguleg skáldsaga. Höfundi tekst að skapa dulúð og heillandi heim þar sem allt getur gerst. Frumlegur söguþráður og skemmtileg tengsl við galdratrú fortíðarinnar og íslenskan þjóðsagnaarf. Persónur eru trúverðugar og sagan bæði áhrifamikil og eftirminnileg.

...

Vilborg Davíðsdóttir

Land næturinnar

Útgefandi: Mál og menning

Vel skrifuð, þrælspennandi og áhugaverð bók. Heimildavinna skilar lifandi lýsingu á menningu, lífsháttum og ferðum fornmanna sem hrífur lesanda með sér. Vilborg sækir í íslenskan sagnabrunn og má segja að Land næturinnar sé kóróna á sérlega vönduðu höfundarverki undanfarna áratugi.

...

Eiríkur Örn Norðdahl

Náttúrulögmálin

Útgefandi: Mál og menning

Söguleg skáldsaga, full af húmor og skrifuð af mikilli orðgnótt. Söguna einkennir rífandi frásagnargleði, listfengi í stíl og frumlegur söguþráður. Þrátt fyrir fjörið og léttleikann er hér tekist á við stórar heimspekilegar spurningar svo úr verður innhaldsríkt og eftirtektarvert skáldverk.

...

Dómnefnd skipuðu:

Guðrún Birna Eiríksdóttir, Hlynur Páll Pálsson og Steingerður Steinarsdóttir sem jafnframt var formaður dómnefndar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×