Innlent

Saka Ragnar um að hafa brotið gróf­lega gegn hags­munum félagsfólks

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR hafnar ásökununum.
Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR hafnar ásökununum. Stöð 2/Arnar

Forsvarsmenn Gildis lífeyrissjóðs hafa sent formlega kvörtun á stjórn VR vegna framgöngu og hegðunar Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, gagnvart stjórnendum og starfsmönnum lífeyrissjóðsins.

Frá þessu greinir Morgunblaðið.

Málið tengist mótmælum sem áttu sér stað á skrifstofu sjóðsins í síðustu viku en markmiðið með þeim var að þrýsta á stjórnendur lífeyrissjóðsins að gera meira fyrir íbúa Grindavíkur.

Langflestir starfsmenn Gildis eru félagar í VR og er haft eftir Árna Guðmundssyni, framkvæmdastjóra Gildis, að þeir starfsmenn sem urðu vitni að mótmælunum hafi upplifað þau sem ógnun og andlegt ofbeldi.

„Fyrst og fremst er þetta bréf sent stjórn VR til að vekja athygli á því að formaðurinn þeirra sé að vinna gegn hagsmunum félagsmanna með því að skipuleggja mótmæli inni á skrifstofu vinnustaðarins þar sem félagsfólkið hans starfar,“ segir Árni.

Ragnar og fleiri hafi komið inn á skrifstofuna með gjallarhorn og í kvörtuninni segir að starfsmenn hafi upplifað að Ragnar hafi verið einn af hvatamönnum þess að mótmælin færu ekki fram með friðsamlegum hætti.

Stjórnendur Gildis segja Ragnar hafa brotið gróflega gegn hagsmunum félagsmanna og biðla til stjórnar VR um að grípa til ráðstafana. Morgunblaðið segist hafa heimildir fyrir því að Ragnari sé kunnugt um kvörtunina en neiti ásökununum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×