Erlent

Ís­lenskur nemandi í Las Vegas: „Ó­líkt öðru sem ég hef upp­lifað áður“

Samúel Karl Ólason skrifar
Hermann Þór Ragnarsson spilar fyrir UNLV Rebels, fótboltalið Háskóla Nevada.
Hermann Þór Ragnarsson spilar fyrir UNLV Rebels, fótboltalið Háskóla Nevada. AP/Aðsend

Hermann Þór Ragnarsson, nemandi við Háskóla Nevada í Las Vegas í Bandaríkjunum, segist aldrei hafa upplifað annað eins, eftir að skotárás var gerð í skólanum fyrr í kvöld. 

Minnst þrír voru skotnir til bana, auk árásarmannsins, og einn er særður á sjúkrahúsi, eftir að árásarmaður hleypti af skotum inn í húsnæði skólans þar sem viðskiptafræði er kennd. Hann fór því næst inn í byggingu sem er nokkurs konar Háskólatorg skólans og hóf einnig skothríð þar.

Þegar árásin hófst sendi skólinn út skilaboð um að árás væri yfirstandandi og að nemendur ættu að flýja, hefðu þeir tök á því.

„FLÝIÐ, FELIÐ YKKUR, BERJIST,“ stóð í skilaboðum skólans á X, áður Twitter.

Sjá einnig: Skotárás í Las Vegas - „Flýið, felið ykkur, berjist“

Um fjörutíu mínútum eftir að útkall barst til lögreglunnar var því lýst yfir að árásarmaðurinn væri látinn. Skömmu áður hafði lögreglan sagt hann króaðan af.

Í samtali við Vísi segir Hermann, sem hóf nám í skólanum í haust, að hann hafi fyrst orðið var við árásina með skilaboðunum frá skólanum. Þá var verið að flytja nemendur úr skólanum. Lögregluþjónar gengu milli húsa með gífurlegan viðbúnað á skólalóðinni.

„Þetta er náttúrulega ólíkt öðru sem ég hef upplifað áður,“ segir Hermann. „Maður er bara í sjokki.“

Hermann segist sækja kennslustundir í byggingunni þar sem árásin hófst en hann hafi þá verið í annarri byggingu.

Árásir sem þessar þykja tiltölulega tíðar í Bandaríkjunum. Aðspurður um það hvort hann hafi haft það í huga þegar hann tók ákvörðun um að fara í nám í Bandaríkjunum, segir Hermann svo ekki vera.

„Maður hafði heyrt af skotárásum í Bandaríkjunum en það var ekkert sem ég var að spá í áður en ég fór út.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×