Skoðun

Jóla­gjöf ársins 2023

Birgitta Steingrímsdóttir, Hildur Mist Friðjónsdóttir og Þorbjörg Sandra Bakke skrifa

Samverustund er jólagjöf ársins samkvæmt Rannsóknarsetri verslunarinnar. Þetta eru frábærar fréttir fyrir okkur og umhverfið!

Rannsóknir sýna að þau sem leggja áherslu á samveru, gæðastundir og umhverfisvænni neysluvenjur eru almennt ánægðari með jólin heldur en þau sem leggja áherslu á að eyða peningum og þiggja gjafir.

Við hjá Saman gegn sóun deilum hér hugmyndum að gjöfum sem gefa:

  • Gefum samveru. Gjafakort upp á næturpössun er dæmi um gjöf sem gleður þvert á kynslóðir. Þá er einnig hugulsamt að bjóða í mat til sín eða gefa gjafakort upp á kósíkvöld, göngutúr, fjallgöngu o.s.frv.
  • Gefum upplifun. Bjóðum í leikhús, á tónleika, á námskeið eða í ferð með útivistarfélagi, svo fátt eitt sé nefnt.
  • Gefum til góðgerðarmála. Öll þekkjum við fólk sem á allt og vantar ekkert. Gefum til góðs málefnis í þeirra nafni og sendum þeim kort sem útskýrir hvernig gjöfin mun nýtast til góðs.
  • Gefum heimatilbúna gjöf. Heimatilbúin gjöf gefur á alveg sérstakan hátt. Hvar liggja hæfileikarnir? Í prjónaskap, sultugerð eða listum?
  • Gefum áskrift. Það hittir í mark hjá mörgum að fá áskrift að góðri sjónvarpsrás eða jafnvel streymisveitu með sjónvarpsefni, hljóðbókum eða tónlist.
  • Gefum notað. Munum að notaðar gjafir eru góðar gjafir, og það á ekki síst við um gjafir til barna. Börnum stendur á sama um umbúðir, skilamiða eða verðmiða og um að gera að leyfa heilum leikföngum og bókum að finna nýtt heimili um jólin. Fyrir fullorðna getur líka verið skemmtilegt að fá góða bók sem gefandinn hefur lesið og loforð um bókaspjall eftir lesturinn.
  • Gefum það sem vantar. Spyrjum þiggjandann hvort hann vanti eitthvað. Stundum er ekkert betra en að fá akkúrat það sem vantar.

Njótum augnabliksins, lágmörkum stress og streitu og höldum hátíðirnar í sátt við umhverfið.

Saman gegn sóun um jólin <3

Höfundar eru sérfræðingar á sviði loftslags og hringrásarhagkerfis hjá Umhverfisstofnun.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×