Í samtali við íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 í gær sagði Hlynur Freyr að ef Haugesund hefði fallið úr efstu deild Noregs um liðna helgi, eins og möguleiki var á, þá hefði hann ekki farið til félagsins.
„Já, ég held það. Ég held að ég hefði ekki komið hingað ef þeir hefðu fallið. Sem betur fer féllu þeir ekki,“ sagði Hlynur Freyr.
Hann átti frábært tímabil með Val í Bestu deildinni í sumar, eftir að hafa komið til félagsins frá Bologna á Ítalíu. Þessi 19 ára varnar- og miðjumaður er hins vegar uppalinn hjá Breiðabliki og spilaði fyrstu leiki sína í meistaraflokki með liðinu undir stjórn Óskars Hrafns. Og hann eltir nú Óskar til Noregs:
„Hann bara seldi mér verkefnið. Mér líst vel á þetta og það eru mjög spennandi tímar hérna fram undan. Svo hef ég líka unnið með honum áður, þegar ég var aðeins yngri, þannig að mér líst bara mjög vel á þetta,“ sagði Hlynur Freyr.
En hvernig líst honum á nýja heimabæinn sinn, Haugasund, sem er með um 38.000 íbúa?
„Þetta er mjög lítið og þægilegt. Ég skoðaði miðbæinn aðeins í gær og hann minnti mann á miðbæ Reykjavíkur. Þetta er þægilegur staður,“ sagði Hlynur en viðtalið við hann má sjá hér að ofan.