Það er mikil eftirvænting fyrir leikinn enda bæði liðin að gera góða hluti í deildinni. Njarðvíkingar komast einir á toppinn með sigri en vinni Keflvíkingar þá verða fimm lið efst og jöfn í efsta sætinu.
„El Clasico“ leikur Reykjanesbæjarliðanna er alltaf einn af hápunktum tímabilsins og hvað þá þegar bæði liðin eru í toppbaráttunni.
Njarðvíkingar hafa unnið báða deildarleiki liðanna undanfarin tvö tímabil og hafa því unnið fjóra síðustu deildarleikina í Reykjanesbæjarslagnum. Keflvíkingar hafa reyndar slegið Njarðvík tvisvar út úr bikarkeppninni á þessum tíma en þegar kemur að leikjum í Subway deildinni þá hafa þeir grænu alltaf fagnað sigri.
Njarðvík vann fyrsta leikinn í þessari fjögurra leikja sigurgöngu 30. desember 2021 en Keflvíkingar hafa ekki unnið deildarleik á móti nágrönnum sínum síðan þeir unnu 32 stiga sigur, 89-57, í Blue höllinni 19. mars 2021.
Liðin hafa nokkrum sinnum unnið fjóra leiki í röð á móti hvoru öðru undanfarin ár en það er hins vegar langt síðan að annað liðið náði að vinna fimm leiki í röð.
Síðasta liðið til að vinna fimm „El Clasico“ leiki í röð var lið Njarðvíkinga vorið 1986.
Njarðvík vann þá sex deildarleiki í röð á móti Keflavík frá febrúar 1984 til febrúar 1986 en Keflvíkingar féllu úr deildinni á þessum tíma.
Keflavík hafði unnið fjóra fyrstu deildarleiki liðanna þegar Keflvíkingar komu fyrst upp í efstu deild á 1982-83 tímabilinu.
Þeir unnu síðan Njarðvík með einu stigi í Ljónagryfjunni 18. nóvember 1983 en síðan ekki aftur fyrr en liðin mættust í Keflavík 23. október 1986.
Í sjötta sigri Njarðvík í röð á Keflavík, 103-83 sigur í Keflavík 21. febrúar 1986, þá voru Valur Ingimundarson og Jóhannes Kristbjörnsson stigahæstir í Njarðvíkurliðinu með 28 stig hvor en Guðjón Skúlason skoraði mest fyrir Keflavík eða 24 stig.
Keflvíkingar enduðu síðan taphrinu sína á móti Njarðvík átta mánuðum síðar með 72-64 sigri í Keflavík. Hreinn Þorkelsson var stigahæstur Keflvíkinga í leiknum með 21 stig en Guðjón Skúlason skoraði 14 stig. Valur Ingimundarson var atkvæðamestur hjá Njarðvík með 24 stig.
- Flestir deildarsigrar í röð í innbyrðis leikjum Njarðvíkur og Keflavíkur:
- 6 - Njarðvík 1984-1986
- 4 - Njarðvík 2021- í gangi
- 4 - Keflavík 2019-2021
- 4 - Keflavík 2016-2018
- 4 - Njarðvík 2008-2009
- 4 - Njarðvík 1995-1996
- 4 - Keflavík 1982-1983