Lögnin hefur allt frá því hún skemmdist flutt nægilega mikið vatn til Eyja og eru íbúar minntir á það í tilkynningu að ekki sé þörf á að spara vatn. Þeim verði tilkynnt um það ef breyting verður á því.
„Í aðgerðastjórn í Vestmannaeyjum hefur verið unnið að gerð áætlana og hefur sú vinna gengið vel og njótum við þar aðstoðar Almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra.“
Hættustig vegna skemmda
Vatnslögnin skemmdist við lok síðasta mánaðar. Hættustigi almannavarna var lýst yfir í Vestmannaeyjum eftir að miklar skemmdir urðu á lögninni sem liggur frá landi og út í Vestmannaeyjar. Skemmdirnar urðu 17. nóvember þegar akkeri Hugins VE, skips Vinnslustöðvarinnar, festist í vatnslögninni sem er sú eina sem sér Eyjamönnum fyrir neysluvatni.
Vinnslustöðin tilkynnti í dag að þau væru búin að festa kaup á þremur gámum með hollenskum tæknibúnaði sem breytir sjó í drykkjarvatn. Þau reikna með að fyrsti gámurinn komi til landsins milli jóla og nýárs og hinir tveir í upphafi næsta árs. Þar sem félagið þarf bara einn gám til að fullnægja eigin þörfum hefur Ísfélaginu og Vestmannaeyjabæ verið boðið að kaupa hina tvo.