Erlent

Banda­ríkja­menn beittu neitunar­valdi gegn vopnahléstillögu

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Mótmælendur í New York kröfðust þess að öryggisráðið myndi samþykkja vopnahléstillöguna.
Mótmælendur í New York kröfðust þess að öryggisráðið myndi samþykkja vopnahléstillöguna. EPA-EFE/JUSTIN LANE

Bandaríkin beittu neitunarvaldi sínu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna gegn tillögu þar sem krafist er vopnahlés á Gasa. Fimmtán ríki eiga sæti í öryggisráðinu.

Í umfjöllun Reuters kemur fram að af þeim, hafi þrettán ríki  stutt tillöguna, sem lögð var fram af Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Bretar sátu hjá. Fimm ríki hafa fast sæti í ráðinu auk neitunarvalds. Það eru Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Rússland og Kína.

Síðastliðinn miðvikudag krafði Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, öryggisráðið formlega um viðbrögð við ástandinu á Gasa. Hann virkjaði 99. grein stofnsáttmála samtakanna en aðeins einu sinni áður hefur það verið gert.

Robert Wood, bandarískur erindreki, sagði öryggisráðinu að bandarísk stjórnvöld styddu ekki tillöguna þar eð vopnahlé myndi einungis sá fræjum næsta stríðs. Bandaríkjamenn hafa á sama tíma þrýst á Ísraelsmenn að gæta að mannlífum í árásum sínum á Gasa strönd.

Þá kemur fram í frétt Reuters að ísraelsk stjórnvöld sem og þau bandarísku séu andsnúin vopnahléi þar sem þau telja að það myndi einungis henta Hamas liðum. Ísraelsmenn hafa heitið því að gjöreyða Hamas liðum eftir árás samtakanna í suðurhluta Ísrael þann 7. október.

Þeir segja að vopnahlé sé einungis mögulegt eftir eyðileggingu samtakanna og þegar gíslum þeirra, sem teknir voru þann 7. október, verði skilað. Erindreki Palestínumanna hjá Sameinuðu þjóðunum, Riyad Mansour, sagði í erindi til öryggisráðsins að ákvörðunin þýði að líf milljóna Palestínumanna hangi nú á bláþræði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×