Skoðun

Sniðgöngum Kærleikskúluna

Einar Örn Jónsson skrifar

Það er sárt að sjá að ágóði af sölu Kærleikskúlunnar 2023 skuli renna til sumarbúðanna í Reykjadal.

Það er ástæða til að rifja upp að Kærleikskúlan er gefin út af Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra (SLF) sem einnig rekur téðar sumarbúðir. Stutt er síðan starfsmaður búðanna beitti níu ára stúlku sem þar dvaldi kynferðisofbeldi. Aðstandendum Kærleikskúlunnar ætti því að vera fullkunnugt um hvernig starfsmenn sumarbúðanna brugðust við glæpnum sem hefði auðvitað aldrei átt að eiga sér stað. Starfsmenn spilltu vettvangi glæpsins, komu geranda undan og kölluðu hvorki til lögreglu né barnavernd eins og þeim bar að gera lögum samkvæmt. Þannig brugðust þeir algerlega þolanda og aðstandendum hans.

Enn hefur enginn axlað ábyrgð á kynferðisofbeldinu í Reykjadal sumarið 2022. Hvorki þáverandi framkvæmdastjóri Reykjadals, Vilmundur Gíslason, né forstöðumaður Reykjadals, Andrea Rói Sigurbjörns, voru látin taka pokann sinn í kjölfar atviksins. Þegar Vilmundur hætti fyrir aldurs sakir löngu síðar var honum þvert á móti þakkað fyrir 25 „farsæl“ ár í starfi á vef SLF. Þá situr Hörður Sigurðsson, formaður stjórnar SLF, enn í formannstól en hann þaggaði svo vel niður glæpinn að hann upplýsti ekki einu sinni alla stjórnarmenn um hann. Þeir starfsmenn og stjórnarmenn SLF sem vissu um glæpinn brugðust einnig forráðamönnum annarra barna í Reykjadal með því að upplýsa þá ekki strax um hvað gerst hafði. Það var ekki fyrr en aðstandendur þolanda í málsins fóru með málið í fjölmiðla mörgum mánuðum síðar að þeir neyddust til þess.

Í kjölfar atviksins í Reykjadal var farið í úttekt á verkferlum í Reykjadal og komið upp viðbragðsáætlun í samstarfi við Barnaheill og er það vel. Hafa skal hugfast að SLF var nauðugur einn kostur að fara í þá vinnu því annars átti félagið yfir höfði sér að rekstrarleyfið yrði tekið af þeim og skellt í lás í Reykjadal. Okkur aðstandendum þolandans í málinu finnst hins vegar ótækt að SLF sé að fara í fjáröflun og ímyndarherferð á þessum tíma meðan enginn innan félagsins hefur axlað raunverulega ábyrgð á því sem þar gerðist sumarið 2023.

Við hvetjum því fólk til að sniðganga Kærleikskúluna 2023. Ef fólk vill láta gott af sér leiða í aðdraganda jóla hvetjum við það til að styrkja Stígamót í staðinn þetta árið.

Höfundur er foreldri.


Tengdar fréttir




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×