Nú þegar rúmir tveir mánuðir eru liðnir síðan átök Hamas og Ísrael stigmögnuðust hafa tæplega sautján þúsund Palestínumenn fallið vegna þeirra. Samkvæmt tölum frá heilbrigðisráðuneytinu á Gasa er meirihluti þeirra konur og börn. Á sama tímabili hafa þrettán hundruð Ísraelar fallið.
Ísraelar hafa eflst eftir að Bandaríkjamenn nýttu sér neitunarvald sitt í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna til þess að koma í veg fyrir samþykkt á vopnahléstillögu. Í kjölfar neitunarinnar sendu Bandaríkjamenn vinaþjóð sinni við Miðjarðarhaf meiri hergögn.
Hörmulegar aðstæður Palestínubúa í haldi Ísraela
Dæmi eru um að óbreyttir borgarar á Gasasvæðinu séu handteknir af ísraelsku lögreglunni og látnir dvelja við hörmulegar aðstæður.
„Ísraelskir hermenn héldu okkur föngnum í fimm daga. Við fengum hálft glas af vatni að drekka. Á fyrsta degi báðum við þá að gefa okkur að drekka en þeir sögðu að ekkert vatn væri til. Á öðrum degi krafðist ég þess að mér yrði sleppt sökum þess að ég væri ungur. Hann neitaði því og gaf mér hálft glas af vatni í viðbót,“ sagði Ahmad Abu Ras, fjórtán ára íbúi á Gasasvæðinu.
Íslensk stjórnvöld þurfi að gera miklu betur
Í dag stóðu samtökin Ísland-Palestína fyrir samstöðugöngu fyrir Palestínu en í dag er alþjóðlegur dagur mannréttinda. Mótmælendur söfnuðust saman við utanríkisráðuneytið á Rauðarárstíg. Sambærileg mótmæli voru haldin bæði á Akureyri og á Ísafirði.
„Það verður að vera hægt að leysa deilur á annan hátt en að myrða og myrða og myrða á báða bóga,“ sagði Kristín Hildur Sætran, mótmælandi, um ástandið á Gasa.

Hvers vegna ert þú hérna í dag?
„Manni ofbýður eiginlega bara að það sé ekki gert meira til að þrýsta á að þessi einhliða þjóðernishreinsun sé stöðvuð,“ sagði Erla Elíasdóttir Völudóttir, mótmælandi.
„Íslensk stjórnvöld þurfa að gera miklu miklu betur en það sem þau hafa gert hingað til af því hingað til hafa þau varla gert nokkuð,“ sagði Julia Mai Linnéa Mar, mótmælandi, um aðgerðir íslenskra stjórnvalda.

Gangan endaði niðri við Alþingishúsið á Austurvelli. Þar voru haldnar kröftugar ræður og krafist viðskiptabanns á Ísrael.