Enski boltinn

Vonast eftir því að Haaland verði búinn að ná sér fyrir HM fé­lags­liða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erling Haaland missti í gær af sínum fyrsta deildarleik með Manchester City á þessu tímabili.
Erling Haaland missti í gær af sínum fyrsta deildarleik með Manchester City á þessu tímabili. Getty/James Gill

Pep Guardiola bindur vonir við það að norski framherjinn Erling Haaland geti hjálpað Manchester City að verða heimsmeistari félagsliða í fyrsta sinn.

Haaland hafði byrjað fyrstu fimmtán deildarleiki tímabilsins en missti af leiknum á móti Luton um helgina. City vann þá 2-1 sigur eftir að hafa verið 1-0 undir í hálfleik.

Guardiola var spurður út í meiðslin hjá Haaland eftir leikinn. Hann fullvissaði þá áhyggjufulla stuðningsmenn City að Haaland væri ekki fótbrotinn eins og einhverjir óttuðust. En hvað verður sá norski lengi frá?

„Við vitum það ekki og verðum að sjá til. Vonandi verður hann búinn að ná sér fyrir heimsmeistarakeppnina,“ sagði Pep Guardiola við breska ríkisútvarpið.

Manchester City mætir annað hvort Club Leon frá Mexíkó eða Urawa Red Diamonds frá Japan í undanúrslitunum en sá leikur fer fram 19. desember í Sádí Arabíu.

Haaland er markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar með fjórtán mörk og hefur alls skorað nítján mörk í öllum keppnum á tímabilinu.

City mætir Rauðu Stjörnunni í Meistaradeildinni í vikunni en hafa þegar tryggt sér sæti í sextán liða úrslitum og sigur í riðlinu. Næsti deildarleikur er á móti Crystal Palace á laugardaginn kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×