Hinar ýmsu sendinefndir ríkja heims hafa nú í tæpar tvær vikur fundað frá morgni til kvölds í Dubai um hnattræna hlýnun og leiðir til að stemma stigu við þróuninni. Það er hins vegar síðdegis sem verulega mun draga til tíðinda þegar lokayfirlýsing fundarins verður kynnt. Helga Barðadóttir formaður íslensku sendinefndarinnar, segir heilmikið eiga sér stað á lokametrunum.
„Fundað var fram á nótt, til hálf þrjú held ég. Það er ljóst að það er heilmikill ágreiningur sérstaklega um orðaleg hvernig við losum okkur við jarðefnaeldsneyti þannig að það kristallaðist í allri umræðunni í nótt.“
Biðin taki nú við því stefnt er að því að klukkan sex verði textinn tilbúinn. „Við verðum bara að sjá hvernig hann verður soðinn saman úr þeim umræðum sem fóru fram í gær.“
Hörð og mikil átök um jarðefnaeldsneyti
Ágreiningurinn hverfist aðallega um framtíð jarðefnaeldsneytis.
„Smáeyjaríkin í Kyrrahafinu, sem sjá fram á að hverfa í sjó ef hitastig og sjávarborð hækkar, gera mikla kröfu um að orðalagið verði mjög sterkt um hvernig við fösum út jarðefnaeldsneyti. En nákvæmlega hvaða orðalag verður notað kemur í ljós því við erum með stórt bandalag olíuframleiðenda sem vilja ekki að tekið sé sérstaklega á jarðefnaeldsneyti. Þeir vilja fremur orðalag um „draga úr losun“ án þess að jarðefnaeldsneyti sé sérstaklega tilgreint.“
Heldur enn í vonina
Helga er bjartsýn þótt átökin um lokaútkomuna séu mikil.
„Það hafa alveg komið upp hugmyndir um að menn vilji þá bara ekki hafa neitt og bara ganga frá borðinu í rauninni eða að það verði einhver texti um að svo og svo mörg ríki hafi verði með ákall um eitthvað ákveðið orðalag en önnur ríki hafi ekki viljað það. Það eru alls konar möguleikar í stöðunni. Ég ætla bara að vera bjartsýn og vona að við náum einhverju sterku orðalagi þarna inn.“