Þetta var meðal þess sem kom fram á íbúafundi Grindvíkinga sem haldinn var í Laugardalshöll í Reykjavík í gær. Fannar Jónasson bæjarstjóri sagði í kvöldfréttum í gær að boðað hafi verið til fundarins til þess að veita Grindvíkingum tækifæri til að bera fram spurningar.
„Við vorum með mjög góða frummælendur hérna sem voru til svara. Það voru málefnalegar spurningar og ég held að svörin hafi líka verið greinargóð. Þannig að þessi fundur skilaði tilgangi sínum og það getur vel verið að við munum endurtaka slíkan atburð.“
Ekki manneklu á Veðurstofunni um að kenna
Ein þeirra spurninga sem helst brunnu á Grindvíkingum var hvort þeir gætu haldið jól og áramót heima hjá sér og verið í bænum yfir nótt. Einn íbúi kvað sér hljóðs og sagðist hafa heimildir fyrir því að ástæða þess að ekki megi sofa í Grindavík sé mannekla á Veðurstofu Íslands.
Í gærkvöldi var tilkynnt að sérfræðingum á Veðurstofunni verði fjölgað til þess að stórefla eftirlit með Grindavík og Svartsengi.
„Veðurstofan vaktar alhliða náttúrvá allan sólarhringinn alla daga ársins og hefur gert um árabil. Þessi nýjasta atburðarás á Reykjanesskaga kallar hins vegar á mun umfangsmeiri vöktun þegar kemur að eldgosavá,“ sagði í tilkynningu þess efnis.
Fannar segir allt annað mál að fólk sofi í bænum en að íbúar og starfsmenn fyrirtækja séu þar yfir daginn.
„Það er allt annað mál ef það ætti að fara að gista á svæðinu og björgunarsveitir og aðrir viðbragðsaðilar yrðu að vera tilbúnir, til dæmis um hátíðarnar, þetta er auðvitað fólk sem er með sínar fjölskyldur og vill njóta jólanna. Það er ekki hægt að ætlast til þess að slíkt viðbragð sé til staðar,“ segir hann.