Fótbolti

Bayern náði að­eins jafn­tefli gegn Ajax

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Glódís Perla spilaði allan leikinn í kvöld.
Glódís Perla spilaði allan leikinn í kvöld. Catherine Steenkeste/Getty Images

Glódís Perla Viggósdóttir spilaði allan leikinn þegar Bayern München gerði 1-1 jafntefli við Ajax í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Bayern hefur nú mistekist að vinna tvo af fyrstu þremur leikjum sínum en hefur þó ekki enn tapað leik.

Glódís Perla lék allan leikinn að venju í miðverði Bayern. Það stefndi í gott kvöld hjá heimaliðinu en Lea Schüller kom Bayern yfir eftir aðeins tveggja mínútna leik. Linda Dallmann með stoðsendinguna.

Chasity Grant jafnaði hins vegar fyrir gestina áður en fyrri hálfleik var lokið og staðan 1-1 þegar liðin gengu til búningsherbergja. Þar sem ekkert var skorað í síðari hálfleik lauk leiknum með 1-1 jafntefli.

Staðan í C-riðli er þannig að Bayern er á toppnum með 5 stig, Roma er með fjögur og mætir París Saint-Germain síðar í kvöld en Frakkarnir eru án stiga. Ajax er í 3. sæti með 4 stig líkt og Roma.

Í D-riðli vann París FC 2-1 heimasigur á Real Madríd. París er þar með komið á blað í riðlinum með þrjú stig en Real er á botninum með aðeins eitt stig eftir þrjá leiki. Síðar í kvöld mætast BK Häcken og Chelsea en fyrrnefnda liðið trónir á toppi riðilsins með 6 stig og Chelsea þar á eftir með fjögur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×